Þetta segir Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Stefnt er að því að hætta notkun Íslykilsins um áramótin en fjölmargir hafa notað hann til auðkenningar í gegnum árin, einkum þeir sem ekki hafa rafræn skilríki.
Öryrkjabandalagið hefur áhyggjur af stöðunni en eins og Stefán bendir á í samtali við Morgunblaðið eru dæmi þess að einstaklingar fái ekki rafræn skilríki til afnota vegna fötlunar sinnar.
„Við höfum áhyggjur af þessu og höfum haft áhyggjur af afdrifum Íslykilsins um langa hríð vegna þess að þetta er auðkenning sem hefur hentað mörgum vel,“ segir Stefán meðal annars. Bendir hann á að allt aðrar öryggiskröfur fylgi notkun rafrænna skilríkja og þau séu mun flóknari í framkvæmd en Íslykillinn – þau séu raunar útilokandi fyrir marga.
„Eins og hefur verið í umræðunni þá eru margir sem einfaldlega fá ekki rafræn skilríki til afnota vegna fötlunar sinnar. Svo eru aðrir sem fá þau en ráða ekki við að nota þau af ýmsum ástæðum. Meðan svo er, og ekki er hægt að tryggja að fólk geti nýtt sér rafræn skilríki, þá verður að tryggja aðgang að þjónustu og réttindum með öðrum hætti,“ segir Stefán við Morgunblaðið.