Landris heldur áfram á svæðinu norðvestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudag. Um 1.300 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðastliðinn sólarhring, þar af eru þrír skjálftar yfir 3 að stærð.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Frá 27. október síðastliðnum hefur land risið um 7 sentímetra samkvæmt GPS-mælistöð á Þorbirni.
„Aflögunin verður vegna kvikusöfnunar í syllu á um 5 kílómetra dýpi. Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum, sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember, er syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020. Innflæði inn í sylluna er metið um 7 rúmmetrar sem er fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn.“
Á vef Veðurstofunnar segir að á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram megi gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga þar sem kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.
Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 15 í dag þar sem farið verður yfir stöðuna á Reykjanesi. Fundinum stýrir Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna. Einnig verða á fundinum Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, Kristinn Harðarson, framkvæmdarstjóri frá HS Orku og Páll Erland, forstjóri hjá HS Veitum.