Bjarkey tók til máls á Alþingi í vikunni og ræddi merkingar á matvælum hér á landi. Benti hún á að íslenskt grænmeti væri iðulega merkt en í kjötvöru væru mörkin óljósari og nefndi hún dæmi um slíkt.
„Við framleiðum hér á landi lamb og naut, kjúklinga og svín og jafnvel kalkún. En kalkúnn í sneiðum, framleiddur úr fyrsta flokks íslensku grísakjöti, upprunaland Pólland, með íslensku fánaröndina hliðarsetta á pakkningunni? Þetta bar fyrir augu neytenda nokkurs í matvöruverslun hér á landi fyrir skemmstu og rataði myndin á veraldarvefinn. Hér hefur augljóslega eitthvað misfarist í prentun merkimiðans og atvikið að einhverju leyti spaugilegt, en merkingar eru alvörumál,“ sagði Bjarkey.
Hún segist vera þeirrar skoðunar að notkun fánalita íslenska fánans við merkingar á erlendum afurðum sem pakkað er af innlendum framleiðendum ætti að vera með öllu óheimil.
„Það er of algengt að framleiðendur freistist til þess að nota fánalitina með þeim hætti til að selja vöru sína. Það er hluti af heilnæmi íslenskra matvæla að eftirlit með framleiðslu og hreinleika afurða sé í fyrirrúmi. Það er engum til góðs að neytendur þurfi að lúslesa pakkningar til að sjá hvar varan er framleidd, sér í lagi ef á henni er íslenskur fáni. Við viljum geta treyst því að fáninn okkar hafi einhverja merkingu en sé ekki eitthvert ódýrt sölutrix.“