Morgunblaðið greinir frá því í dag að ekki hafi einungis orðið skemmdir á vatnslögninni heldur hafi ljósleiðari Vodafone einnig slitnað. Almannavarnir lýstu á þriðjudag yfir hættustigi vegna skemmda á neysluvatnslögninni en ljóst er að skipta þarf um hana.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að röð mistaka virðist hafa átt sér stað þegar atvikið varð. Herma heimildir blaðsins að líkur bendi til þess að Huginn hafi siglt með akkerið úti frá miðunum þar sem skipið var við veiðar.
„Síðan, þegar áhöfnin varð þess vör að akkerið festist í botni í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn, var farið að hífa og reyna að losa akkerið með því að færa skipið til, í stað þess að höggva þegar í stað á akkerisfestarnar sem þó var gert að lokum. Þá var það um seinan og skaðinn skeður,“ segir í frétt blaðsins.
Skipstjóra og stýrimanni skipsins hefur verið sagt upp störfum vegna málsins.
Morgunblaðið hefur eftir Karli Gauta Hjaltasyni, lögreglustjóra í Eyjum, að málið sé til rannsóknar og gagnaöflun enn í gangi.