Félag í eigu Samherja hefur boðist til að borga hluta af þeim bótum sem félagsdómur í Namibíu dæmdi 23 sjómönnum á togaranum Heinaste. Lögmaður sjómannanna hefur hafnað boðinu og segir þá eiga að fá alla upphæðina með vöxtum.
Namibíska blaðið The Namibian greinir frá þessu. Það er að félagið Esja Investment, í eigu Samherja í gegnum dótturfyrirtækið Esja Fishing, hafi boðist til þess að greiða sjómönnunum 23 bótapakka.
Sjómönnunum var sagt upp fyrirvaralaust árið 2019 og skipt út fyrir ódýrara vinnuafl. Stefndu þeir félaginu ArcticNam, í helmingseigu Samherja, fyrir félagsdóm og unnu það mál þann 24. júní árið 2021. Var ArcticNam gert að greiða þeim samanlagt 15,7 milljónir króna (1,8 milljón namibískra dollara) í bætur.
Samkvæmt dóminum átti að greiða bæturnar fyrir 30. júlí það ár en það hefur ekki gerst.
Í frétt The Namibian kemur ekki fram hversu hátt boð Esju er en það kemur fram að boðinu hafi þegar verið hafnað. Það var gert með bréfi sem lögmaðurinn Norman Tjombe sendi fyrir hönd sjómannana til Esju í gær, 29. nóvember.
„Okkur var falið að staðfesta það að umbjóðendur okkar hafa hafnað boði um að fá aðeins hluta af þeim bótum sem þeir fengu í dóminum. Okkur er falið að sjá til þess að þínir umbjóðendur borgi bæturnar að fullu og vexti upp á 20 prósent á ári hverju ári og eru vextirnir reiknaðir frá uppkvaðningu félagsdómsins (það er 24. júní árið 2021) þar til upphæðin er greidd að fullu,“ segir í bréfi lögmannsins.
Frá uppkvaðningu dómsins hafa liðið um 29 mánuðir. Uppsafnaðir vextir séu því orðnir tæplega 8 milljónir króna (900 þúsund namibískir dollarar).
Ítrekaði Tjombe að um sé að ræða fyrirskipun dómsvalds um greiðslu bóta. Hans umbjóðendur beri enga ábyrgð á því að greiðsla bótanna hafa tafist í allan þennan tíma. Ekki verður fallist á að hagga bótaupphæðinni eða vöxtunum. Hún yrði að greiðast innan viku.
„Enn fremur hafa þínir umbjóðendur, fyrirtækið Esja Investment og framkvæmdastjóri, dembt umbjóðendum okkar í sára fátækt með ólöglegum aðgerðum, fyrir utan þær ásakanir um spillingu og mútugreiðslur sem umbjóðendur þínir standa frammi fyrir, sem eru beintengdir örlögum okkar umbjóðenda,“ segir hann í bréfinu.