Einar rifjar upp að um þessar mundir eru fjörutíu ár liðin frá fyrsta HIV-smitinu á Íslandi, en á morgun, 1. desember, er alþjóðlegi alnæmisdagurinn.
„Þá gerum við upp baráttuna við þennan skæða sjúkdóm, fögnum þeim sigrum sem hafa unnist í baráttunni, minnumst þeirra sem hafa látist og hugsum til þeirra sem lifa með sjúkdómnum frá degi til dags. Á liðnu ári voru 39 einstaklingar nýskráðir með HIV á Íslandi.“
Einar segir að minnast megi alnæmisfaraldursins á Vesturlöndum sem „kynvillingaplágunnar“ sem varpaði kastljósi á fordóma gagnvart ýmsum minnihlutahópum, þá sérstaklega hommum.
„Hatursins sem þeir máttu þola og framkomunnar í þeirra garð sem var fyrir neðan allar hellur. Það var gríðarlega mikill ótti í samfélaginu. Það var ótti í gay-samfélaginu sem hafði afdrifarík áhrif og setti mark á framtíðina. Mótaði möguleika samkynhneigðra manna til lífs og ásta,“ segir hann og er ómyrkur í máli.
„Kynvillingar. Margir mannorðslausir, húsnæðislausir, atvinnulausir og án tækifæra. Við vorum menn sem þóttu með siðferðiskenndina á lægra plani en aðrir. Við vorum jafnvel um tíma taldir líffræðilega öðruvísi, með annað kerfi. Tilvera okkar ögraði ríkjandi gildismati,“ segir hann og bætir við að það hafi verið dauðadómur að fá þessa skelfilegu veiru.
„Útskúfun samfélagsins var fangelsið sem við vorum látnir bíða í fram að lífslokum. Höfnun á öllum sviðum og okkur neitað um ást og rétt til ástar. Menn í þessum aðstæðum fóru að haga sér eftir áliti samfélagsins. Samfélagið mótar einstaklinginn og það mótaði líka okkur hommana, hvernig við ættum að vera. Hvaða hlutverk við ættum að leika. Það þótti í lagi að segja hvað sem er við okkur. Gera hvað sem var við okkur.“
Einar segir að á fyrstu alnæmisárunum hafi sumar fjölskyldur reynt að styðja sína en aðrar ekki.
„Enn aðrar lokuðu sína inni í herbergi. Svo dóu þeir. Við stóðum á hriplekum fleka. Við strákarnir. Og elsku stelpurnar; Védís heitin, Hrafnhildur heitin. Og duglega Laufey.“
Hann segir að veiran hafi fellt marga tugi sem voru í blóma lífsins en hvetur okkur einnig til að hugsa til allra þeirra sem flúðu land og áttu misgóða ævi víða um lönd. „Kærur. Hótanir. Lögreglan. Kirkjan, stofnanir og kerfið brugðust okkur og við vorum skilin eftir. Ég þekki engan sem komst alheill frá þessu.“
„Við trúum því að sýnileiki hinsegin fólks hafi aukist með þessum ósköpum og vakning orðið í mannréttindamálum. Fólk sýndi í verki að það vildi sýna samstöðu, skilning og stuðning. Fjölskyldur og vinir hlúðu að sínum, þess naut ég og margir aðrir. Þúsund þakkir fyrir það. Alnæmi jók nefnilega sýnileika og hugrekki einstaklinga, það var engu að tapa en allt að vinna.“
Einar segir að nú minnumst við þeirra sem látist hafa úr alnæmi.
„Dóu jafnvel áður en fólk áttaði sig og steig inn. Áður en því raunverulega fannst við eiga skilið að fá hjálp. Við minnumst þeirra sem börðust fyrir að fá að elska. Við minnumst þeirra sem dóu í leit sinni að ást.“