Leifur Runólfsson, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, hefur sent á fjölmiðla yfirlýsingu í nafni barnsföður Eddu sem býr í Noregi. Edda Björk var handtekin í gærkvöld en í yfirlýsingunni kemur fram að þá voru synirnir þrír ekki með henni.
„Faðir hefur ekki viljað fara með deilur foreldranna í blöðin til að halda hlíðarskildi yfir börnunum. Hins vegar hefur móðir ítrekað farið með málið í fjölmiðla og sett fram einhliða frásögn. Dómstólar bæði í Noregi og á Íslandi og það á tveimur dómstigum í báðum löndum hafa ávallt úrskurðað föður í dag eftir að hafa skoðað málið gaumgæfilega,“ segir í yfirlýsingunni.
Einnig er bent á að lögregla í Noregi hafi óskað eftir því að Edda Björk verði framseld til Noregs og sé það ekki að ástæðulausu.
„Það er nauðsynlegt að þessir drengir finnist sem fyrst,“ segir í yfirlýsingunni. Segir að fólk sem sé með synina þrjá í sinni umsjón sé að brjóta íslensk hegningarlög. Einnig segir að það sé mjög alvarlegt að villa um fyrir yfirvöldum með því að birta á samfélagsmiðlum myllumerkið „Drengirnir eru hjá mér“ eins og stuðningsfólk Eddu Bjarkar hefur gert.
Í lok tilkynningarinnar er biðlað til þeirra sem kunna að hafa vitneskju um dvalarstað drengjanna að hafa samband við lögreglu.