Vísindamenn við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi hafa komist að því að langtímanotkun á ADHD lyfjum getur aukið líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum. Þetta kemur fram tveimur nýjum rannsóknum, sem birtar voru í tímaritunum The Lancet Psychiatry og JAMA Psychiatry.
Vísindamennirnir rannsökuðu lyfjaávísanir 1,2 milljón sjúklinga í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Hong Kong og Íslandi. Það mynstur sem þeir sáu var eins í öllum löndum. Fólk sem hafði notað ADHD lyf í langan tíma og í hærri en meðal skömmtum var líklegra til að fá suma hjarta og æðasjúkdóma.
Þetta eru einkum fólk sem hefur tekið ADHD lyf í allt að 14 ár. Sjúkdómarnir eru hár blóðþrýstingur og slagæðasjúkdómar. Samkvæmt rannsókninni aukast líkurnar á þessum sjúkdómum um 4 prósent á hverju ári. Þetta á við sjúklinga sem nota skammta sem eru að minnsta kosti 50 prósentum yfir meðaltali.
Einnig kom fram að meira en helmingur unglinga og fullorðinna sem hafði fengið ADHD lyf hætti að taka lyfin á innan við einu ári. Einnig um 35 prósent barna, það er í öllum löndum fyrir utan Danmörku þar sem hlutfallið var mun lægra.
„Það er ólíklegt að svo margir hafi hætt sinni lyfjameðferð vegna þess að ADHD einkennin hafi rénað, sem þýðir að þetta háa hlutfall gæti verið merki um hindrun við eðlilega meðferð. Okkur hefur ekki tekist að sjá hvað veldur þessu en oft er ástæðan fyrir því að fólk hættir lyfjatöku sú að þau virki illa eða hafi aukaverkanir,“ segir Zheng Chang, faraldsfræðingur við Karólínska sjúkrahúsið, sem leiddi báðar rannsóknirnar við heilbrigðisvefinn News Medical.
Flestir hætta lyfjatöku 18 eða 19 ára. Að sögn vísindamannana er hætta á að fólk falli á milli kerfa á þessum árum, þegar fólk hættir að vera skilgreint sem börn samkvæmt lögum.
„Við þurfum að bæta tilfærslu barna yfir í fullorðins geðlækningar og dreifa þekkingu um þau vandamál tengd ADHD sem eru oft viðvarandi í langan tíma,“ segir vísindamaðurinn Isabell Brikell sem einnig kom að rannsókninni.