Hlynur Guðmundsson, þrítugur samkynhneigður maður úr Vík í Mýrdal, segist ekki hafa upplifað sig velkominn þegar hann sóttist eftir því að vera hluti af ungliðahreyfingu Samtakanna ´78. Að eigin sögn kom hann út úr skápnum fremur seint og stuttu eftir það fluttir hann til Reykjavíkur til þess að sækja nám árið 2015.
Frá þessu greinir hann í nýlegum þætti hlaðvarpsins Ein pæling.
Hlynur gekk í raðir Vöku sem er hagsmunafélag stúdenta í Háskóla Íslands og segir að mörgum hafi þótt það einkennilegt og spurt hvernig á því stæði, eðlilegast væri fyrir samkynhneigt fólk að vera í Röskvu. Á upphafsvikum námsins hafi hann svo mætt í samkvæmi á vegum ungliðahreyfingar Samtakanna ´78 þar sem meðal annars var rætt um stjórnmál. Hann hafi tjáð fólki að hann væri Sjálfstæðismaður sem hafi strax breytt stemningunni í samkvæminu.
„Ég var skráður Sjálfstæðismaður á þessum tíma. Og maður fékk það strax á tilfinninguna bara, hey, vó. Bíddu. Af hverju ert þú hér? Gamanið kárnaði.“
Hlynur viðurkennir að Sjálfstæðismenn hafa haft sína vankanta hvað við kemur hinseginstefnu en telur þó að flokkurinn hafi margt til síns máls er varðar frelsismál.
„Það er auðvitað vont að finna það að vegna pólitískra skoðana að maður sé hugsaður upp sem óvinur.“
Hann segist almennt vera vel liðinn og þykir gaman að takast á um pólitísk málefni í góðra vina hópi. Það hafi þó ekki verið raunin í þessu samkvæmi.
„Þarna fann maður að stemningin var orðin svolítið súr. Samtölin fóru að slitna mjög hratt. Svo er einhver hiti að myndast og ég bara ok, kannski ætti ég bara að fara. Ég er ekki að hafa góð áhrif á þetta partí, ég finn það. Það er orðið bara leiðinlegt kurr. Þannig ég ákveð að fara. Og þá er sagt við mig að ég sé bara slæmur hommi. Og þetta er það síðasta sem að ég fæ að heyra þegar ég labba úr þessu partíi.“
Ofangreindur atburður átti sér stað fyrir nokkrum árum en Hlynur segir þetta hafa valdið því að hann sneri alfarið baki við Samtökunum og hefur ekki látið baráttu hinseginfólks innan Samtakanna sig varða eftir þessa lífsreynslu.
Hluta hlaðvarpsins má heyra hér en í heild sinni á www.pardus.is/einpaeling.