„Ég hef aldrei ætlað mér að komast undan réttvísinni og hef alltaf ætlað að mæta fyrir rétt í Noregi,“ segir Edda Björk Arnardóttir, móðir þriggja sona, sem fer huldu höfði eftir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti eftir henni í gærkvöldi á grundvelli norrænnar handtökuskipunar. Það vakti mikla athygli í mars 2022 þegar Edda Björk nam þrjá syni sína á brott frá íslenskum barnsföður sínum í Noregi og flaug með þá í einkaflugvél til Íslands. Faðirinn fer með forsjá drengjanna og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað að þeir skuli fara aftur heim til föður síns í Noregi.
Edda Björk segir að ástæða þess að hún hafi ekki gefið sig fram sé sú að ekki hafi verið sett fram dagsetning á réttarhöld yfir henni í Noregi.
„Síðastliðið sumar var gefin út handtökubeiðni á mig í Noregi. Forsendur hennar eru sagðar þær að ég hafi ekki brugðist við fyrirkalli til að mæta í réttarhöld yfir mér þann 9. og 10. ágúst síðastliðinn. Þann 28. júlí eða 12 dögum FYRIR áætlaða aðalmeðferð var óskað eftir því að ég yrði handtekin og framseld. Ekkert í gögnum frá Noregi sýnir að ég hafi ekki ætlað að mæta fyrir dóm, þvert á móti var lögmaður minn í Noregi búinn að staðfesta þessar dagsetningar við réttinn. Ég fékk því ekki einu sinni tækifæri til að framkvæma þann “glæp” sem norsk yfirvöld vilja nú láta handtaka mig fyrir og framselja gegn mínum vilja til Noregs til að sitja þar í gæsluvarðhaldi. Norsk yfirvöld hafa enga ástæðu til að ætla að ég muni ekki mæta fyrir réttinn en það hef ég alltaf ætlað mér. Einnig er því haldið fram í beiðninni að ég muni reyna að komast undan afplánun refsidóms sem er alrangt. Ég er að afplána norskan refsidóm með samfélagsþjónustu nú þegar,“ skrifar Edda Björk í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.
Hún sé því ekki tilbúin að láta handtaka sig og færa til Noregs án þess að dagsetning sé komin á ný réttarhöld.
„Síðast í dag sendi ég tölvupóst á lögmann minn í Noregi sem staðfesti enn og aftur að ekki hefði verið haft samband við hann og því ekki komin dagsetning á fyrirhuguð réttarhöld. Yfirvöldum á Íslandi er í lófa lagt að samþykkja framsal mitt á þeim forsendum að dagsetning réttarhalda liggi fyrir en framselji mig ekki til að sitja í gæsluvarðhaldi í óskilgreindan tíma.
Einnig má með góðu móti draga þá ályktun af samskiptum við norsk yfirvöld að ástæða þessarar beiðnar er alls ekki sú sem greint er frá hér fyrir ofan heldur virðist hún einungis vera yfirvarp. Beiðnin er þáttur í stærri áætlunum um að flytja syni mína gegn vilja sínum til Noregs. Tilvitnun: “„The father will come to Iceland, in order to take care of the sons and bring them back to Norway … We hope you will contact us when you know which date you are planning to apprehend so we can inform the father and start planning the transport to Norway“,“ segir Edda Björk í yfirlýsingunni.
Hennar ályktun sé að íslensk yfirvöld vilji leysa þetta sem fyrst og helst í skjóli nætur því hún sé með svo mikið vesen.
„Landsréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms rétt fyrir klukkan 17 á föstudegi. Við áttum von á úrskurði á miðvikudegi eða í síðasta lagi á fimmtudegi. Klukkan 20 á föstudagskvöld var lögreglan mætt með leitarheimild á heimili mitt. Fyrir tilviljun var ég ekki heima. Ástæða þess að ég hef ekki gefið mig fram er sú að ég vil að íslensk yfirvöld gæti meðalhófs í afhendingu minni. Ég vil að ég sem íslenskur ríkisborgari njóti vafans þegar kemur að óljósum framsalsbeiðnum sem engin gögn styðja og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. En mér líður oft eins og ég sé að berjast við vindmyllur. Og íslensk yfirvöld ætla enn einu sinni að beygja sig fyrir konunginum,“ skrifar Edda Björk.