Fyrrverandi kærasta ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini, sem varð alræmdur fyrir plastbarkamálið, stígur fram í nýjum sjónvarpsþáttum um sögu læknisins. Ísland spilaði rullu í þessari sögu.
„Í dag tel ég að hann sé að minnsta kosti sjúkur lygari, en líklegast er hann sósíópati eða siðblindingi, en á þessum tíma hélt ég að hann myndi breyta heiminum,“ segir Benita Alexander. Þetta kemur fram hjá breska blaðinu The Telegraph.
Alexander var á miðjum fimmtugsaldri árið 2013 þegar hún kynntist Macchiarini. Hún starfaði þá sem dagskrárgerðarkona hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC og vildi nálgast manninn sem hún hafði heyrt að gerði undraverða hluti í læknisfræði á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Það er að ígræða plastbarka, hjúpaða stofnfrumum, í sjúklinga til þess að losna við að líkaminn hafnaði barkanum.
Sumir sjúklingar voru búsettir á Íslandi og tveir íslenskir læknar komu að þessum meðferðum. Það er Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson.
Síðar kom í ljós að þessi vísindi voru byggð á sandi og enginn eðlilegur frumuvefur myndaðist utan um barkana. Leyfi siðanefndar höfðu heldur ekki verið veitt. Sjúklingar Macchiarini fóru að veikjast alvarlega og deyja.
Macchiarini var til rannsóknar hjá sænsku lögreglunni árin 2016 og 2017 en henni hætt vegna þess að sjúklingarnir hefðu hvort eð er annars dáið. Á Ítalíu var Macchiarini dæmdur í undirrétti fyrir skjalafals árið 2019 en sýknaður í hæstarétti.
Tvær heimildamyndir eru á leiðinni um Macchiarini. Það er annars vegar Netflix myndin Bad Surgeon: Love Under the Knife og hins vegar Dr. Death: A True Crime Drama sem sýnd er á streymisveitunni Peacock TV.
Saga Benitu Alexander er til umfjöllunar í báðum myndum. Hún lýsir Macchiarini sem hálfgerðum dávaldi. „Hann er eins og könguló sem dregur þig smám saman inn í vef sinn, en hann gerir það af svo mikilli færni að þú veist ekkert hvað er að gerast,“ segir Alexander.
Alexander segist hafa verið mjög viðkvæm á þessum tíma. Hún var nýskilin og fyrrverandi eiginmaður hennar hafði greinst með heilaæxli. Hún telur að Macchiarini hafi valið hana einmitt vegna þess að hún var í viðkvæmri stöðu.
„Ég held að það hafi verið hluti af spennunni hjá honum. Þeim mun klárari sem konan var og stærri sem stofnunin var þeim mun meiri unað fékk hann af þessu,“ segir hún.
Eftir að hafa kynnst Macchiarini leið ekki á löngu þar til hún braut eina af meginreglum blaðamennskunnar, það er að verða ástfangin að viðmælandanum. „Undir eins var ég svífandi á bleiku skýi,“ segir hún.
Macchiarini fór með Alexander í ástarferðir til Feneyja og Grikklands en á sama tíma var verið að rannsaka aðferðir hans og ýmislegt að komast í ljós. Það voru samstarfsmenn hans hjá Karólínska sjúkrahúsinu sem það gerðu og þeir létu vita.
Alexander segir frá því að Macchiarini hafi beðið hennar um jólin 2013 og hún sagði já. Hann sagði henni hins vegar að hún yrði að láta honum eftir skipulagningu brúðkaupsins. Hann væri hluti af leynilegum samtökum lækna sem meðhöndluðu mikilvægasta fólk heimsins.
Macchiarini sagðist meðal annars ætla að bjóða Obama hjónunum, Clinton hjónunum, Vladímír Pútín, Nicolas Sarkozy og fleiri stórbokku. Andrea Bocelli myndi syngja í athöfninni og Franz páfi gefa þau saman.