fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Árni Logi kærði lögreglumann og móður hans fyrir rangar sakargiftir – Tilhæfulaus ásökun um byrlun og nauðgun

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 27. nóvember 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta mál er hreinn viðbjóður og framganga lögreglunnar á Akureyri hefur verið glæpsamleg,“ segir Árni Logi Sigurbjörnsson meindýraeyðir, en hann mátti þola harkalegar lögregluaðgerðir vegna ásakana sem virðast hafa verið tilhæfulausar.

Martröð Árna Loga hófst aðfaranótt 2. febrúar árið 2020 er hann var á heimleið eftir að hafa ekið fjölmörgum gestum þorrablóts sem haldið var í Skúlagarði í Kelduhverfi um kvöldið. Árni Logi, sem er víðkunnur meindýraeyðir og starfar meðal annars á Húsavík og raunar um allt land, býr afskekkt að Víðihlíð í Öxarfirði. Hann átti skammt ófarið að heimili sínu er lögreglumenn stöðvuðu för hans. Var honum tjáð að hann væri handtekinn og flytja ætti hann til Akureyrar í varðhald. Árni Logi segir að lögreglumennirnir hafi ekki sagst vita ástæðuna fyrir handtökunni en í lögregluskýrslu segir að honum hafi verið gefin upp kynferðisbrot sem ástæða handtökunnar. Kona hafði kært hann um byrlun og nauðgun.

Árni Logi segist hafa orðið mjög undrandi yfir þessu enda vissi hann ekki upp á sig neina sök. „Ég sagði við þá að þeir yrðu fyrst að fylgja mér heim því þar loguðu jólaljós sem ég þyrfti að slökkva,“ segir hann. Þessari bón var hafnað. „Þeir sögðu mér að þeir hefðu fyrirskipun um að handtaka mig þarna á staðnum og það ætti að setja mig í járn ef ég sýndi mótþróa.“

Árni Logi var síðan færður í lögreglubíl og honum ekið til Akureyrar þar sem honum var stungið inn. Bíllinn hans var gerður upptækur og um tíu lögreglumenn framkvæmdu ítarlega húsleit á heimili hans.

„Heimili mínu var hreinlega rústað,“ segir Árni Logi sem sendi DV myndir að aðkomunni eftir húsleitina, en þær eru í samsettri mynd við fréttina. „Það var tekið af rúminu mínu og sent til Svíþjóðar í DNA-greiningu. Þeir tóku af mér alls konar verkfæri og sumu hafa þeir ekki enn skilað aftur,“ segir Árni Logi, sem hefur kært framgöngu lögreglu gegn sér til Embættis ríkislögmanns og krafist skaðabóta.

Átti að hafa byrlað konu og nauðgað henni

Þann 31. janúar árið 2020 tilkynnti lögreglumaður á Akureyri um meint kynferðisbrot gegn móður hans. Í kjölfarið aðstoðaði hann móður sína við að leggja fram kæru í málinu. Meintur gerandi var Árni Logi Sigurbjörnsson meindýraeyðir.

Árni Logi er fæddur árið 1952 og hefur starfað sem meindýraeyðir áratugum saman. Konan sem kærði hann fyrir kynferðsisbrot er þremur árum yngri. Hún sagði hann hafa brotið tvisvar gegn sér á heimili hans, þann 15. og 18. janúar. Taldi hún Árna Loga hafa byrlað sér ólyfjan í bæði skiptin og síðan misnotað hana kynferðislega á meðan hún var meðvitundarlaus. Henni hafi liðið mjög illa eftir að hún vaknaði, hafi verið mjög verkjuð og liðið eins og hún væri með aðskotahlut í leggöngunum. Lýsingar konunnar á atvikum eru hrollvekjandi en hún sagðist meðal annars hafa séð Árna Loga kviknakinn sveifla beinstífum getnaðarlimi sínum og  hann hafi verið geðveikislegur í framan. Kóngurinn á honum hafi verið eldrauður og þrútinn.

Konan sakaði hann einnig um að hafa tekið af sér kynferðislegar myndir og sýnt tveimur kunningjum sínum.

Rannsóknin stóð yfir í 20 mánuði. Árni Logi og lögmaður hans hafa gagnrýnt mjög harðlega að lögregla skuli ekki hafa aflað sér gagna um staðsetningu snjallsíma Árna Loga og konunnar á tíma meints brots. Loksins þegar þeirra gagna var aflað kom í ljós að fólkið hafði ekki verið statt í sama landshlutanum dagana 15. og 18. janúar. Þegar hafði komið fram við rannsókn málsins að Árni Logi var með fjarsvistarsönnun fyrir þessa tvo daga, hann hafði þá ekki verið heima heldur við störf á Húsavík sem meindýraeyðir. Um það gátu lögreglumenn á Húsavík vitnað.

Lögregla spurði konuna hvort önnur dagsetning kæmi til greina og tilgreindi hún dagsetningu nokkrum dögum síðar. En á þeim degi lá Árni Logi á sjúkrahúsi á Akureyri vegna handleggbrots.

Vinkona kærandans sagðist í yfirheyrslu hjá lögreglu finnast frásagnir hennar um sýningar Árna Loga á viðkvæmu myndefni af henni vera langsóttar. Mennirnir tveir sem Árni Logi átti að hafa sýnt myndefnið könnuðust ekki við neitt slíkt, sögðust aldrei hafa séð neinar kynferðislegar myndir hjá honum og kynlíf aldrei borið á góma í samræðum við hann.

Sakfelldur fyrir vopnalagabrot en kæru um rangar sakargiftir vísað frá

Árni Logi segir ásakanir konunnar vera glórulausan hugarburð. Hann átelur mjög lögreglu fyrir vinnubrögð í málinu en hægt hefði verið að útloka sekt hans þegar í byrjun rannsóknar með því að afla gagna um staðsetningu snjallsíma hans og konunnar sem ásakaði hann. Þá þykir honum mjög sérstakt að ákveðið hafi verið að handtaka hann ekki fyrr en hann hefði lokið akstri með þorrablótsgesti nóttina 2. febrúar.

Við húsleitina fannst mikið magn skotvopna sem ekki var gengið frá með tilheyrandi í hætti í læstar hirslur. Árni Logi var með leyfi fyrir þessum skotvopnum og notaði sum þeirra í störfum sínum sem meindýraeyðir. Hann sagði ástæðuna fyrir því að vopnin voru ekki í læstum hirslum hafa verið þá að hann var að flytja starfsemi sína í annað húsnæði. Einnig benti hann á að enginn hafi haft aðgang að vopnunum nema hann því hann búi afskekkt og enginn hafi heimsótt hann. Árni Logi var engu að síður sakfelldur fyrir vopnalagabrot bæði í héraðsdómi og Landsrétti en fékk vægan skilorðsbundinn dóm.

Sem fyrr segir tók rannsókn kynferðisbrotamálsins gegn Árna Loga 20 mánuði. Hann og lögmaður hans freistuðu þess að kæra lögreglumanninn og móður hans fyrir rangar sakargiftir en kærunni var vísað frá á þeim forsendum að rannsókn stæði enn yfir.

Það var síðan þann 9. september árið 2021 sem Héraðssaksóknari sendi bréf til Árna Loga með tilkynningu þess efnis að málið hefði verið fellt niður. Segir að ekki verði talið að það sem fram sé komið við rannsókn málsins sé nægilegt eða líklegt til sakfellis og er málið fellt niður.

Þann 31. janúar kærði Árni Logi konuna síðan til Lögreglunnar á Norðurlandi eystra fyrir rangar sakargiftir. Í kærunni segir lögfræðingur Árna Loga meðal annars:

„Aðgerðir lögreglu í kjölfar kæru á hendur skjólstæðingi mínum urðu mjög alvarlegar fyrir hann. Þurfti hann að þola frelsissviptingu, ærumissi, illt umtal og enn þann dag í dag hefur lögregla ekki afhent honum persónulega muni sem haldlagðir voru á heimili hans. Skjólstæðingur minn  bendir á að frá upphafi hafi verið ljóst að um tilhæfulausar aðgerðir lögreglu hafi verið að ræða og rangar sakargiftur af hálfu kærðu. Skjólstæðingur minn hefur mátt búa við algjöra óvissu í langan tíma og við bætist að meðferð málsins hjá lögreglu hefur dregist algjörlega úr hömlu. Þá verður ekki annað séð en að aðgerðir lögreglu hafi dregið dám af því að sonur kærðu var lögreglumaður og sú staðreynd blasir við að hann útbjó kæru fyrir móður sína og kom að rannsókn málsins eins og sjá má af gögnum málsins. Aðgerðir lögreglu voru ekki aðeins tilhæfulausar heldur liggur einnig fyrir að lögreglan gætti ekki meðalhófs og fór algjörlega offari í aðgerðum sínum.“

Kærunni var svarað þann 10. júní 2022. Í bréfi sem Eyþór Þorbergsson, saksóknari hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, undirritaði, segir Eyþór að hann hafi ákveðið að hætta rannsókn málsins eftir að hafa yfirheyrt konuna og hún neitað sök.

Berst fyrir því að endurheimta eignir sínar, réttindi og mannorð

Þann 16. júní kærði lögmaður Árna Loga þessa ákvörðun Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til ríkissaksóknara sem vísaði málinu frá. Um miðjan febrúar 2022 var gerð fyrir hönd Árna Loga þriggja milljóna króna bótakrafa á ríkið vegna málsins en henni var hafnað.

Árni Logi var sviptur skotvopnaleyfi í kjölfar húsleitarinnar 2020 og hefur ekki endurheimt það síðan. Lögmenn hans vinna að því að endurheimta skotvopnaleyfið og ennfremur að krefjast þess að lögreglan skili Árna Loga eigum hans sem haldlagðar voru í húsleitinni.

Árni Logi segir í samtali við DV að hann skynji að sveitungar hans trúi ekki upp á hann þeim ásökunum sem konan bar á hann. Segist hann hafa fengið upplýsingar um að hún hafi sakað annan karlmann um kynferðislega áreitni, mann á tíræðisaldri og lækni, sem ekkert hafi unnið henni til miska. Margt ókunnugt fólk hafi sett sig í samband við hann, fólk sem þekki til umræddrar konu, og segist ekki trúa ásökunum hennar í hans garð.

„Þegar þeir sáu að þetta mál var tapað þá sendu þeir á mig 15 manna lið sem svipti mig skotvopnaleyfi vegna þess að ég ætti alltof margar byssur. Ég hef verið skotvopnalaus og í raun sviptur vinnunni í tæp fjögur ár,“ segir Árni Logi en lögmenn hans vinna hörðum höndum af því að endurheimta skotvopnaleyfið fyrir hans hönd.

„Ég má ekki horfa á byssur, ég má ekki gera við byssur, ég er lærður byssusmiður,“ segir hann ennfremur með þunga. „Ég er búinn að eiga við byssur frá því ég var 9 ára og ég hef gert við byssur alla ævi, alltaf á mínu heimili. Meira að segja lögreglan hefur komið til mín með byggur til viðgerðar en núna má ég allt í einu ekki koma nálægt skotvopnum. Þetta nær engri átt.“

Þess má geta að Árni Logi er með hreint sakavottorð fyrir utan dóm fyrir vopnalagabrot sem hlaust af húsleitinni. Brotið varðar ófullnægjandi vörslu á skotvopnum. Lögmenn hans hafa áréttað í erindum sínum um málið að hann sé friðsamur maður sem aldrei hafi verið bendlaður við ofbeldi fyrr en umrædd kæra konunnar leit dagsins ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg