The Guardian greindi frá því fyrir helgi að Karl konungur Bretlands hafi grætt vel á dauða þúsunda manna í norðvesturhluta Englands. Eignir þessa fólks hafa verið notaðar til að bæta enn við landar-og fasteignaveldi Karls. Þar er um að ræða hið svokallaða Hertogadæmi Lancaster (e. Duchy of Lancaster). Það er samansafn landar- og fasteigna auk annarra eigna. Það er í eigu handhafa bresku krúnunnar á hverjum tíma og á sér margra alda langa sögu. Hertogadæmið hefur fært konunginum og forverum hans mikinn fjárhagslegan ágóða.
Á undanförnum árum hefur hertogadæmið safnað að sér umræddum eignum látinna að andvirði tuga milljóna punda en það samsvarar tugum milljarða íslenskra króna. Hefur þetta verið gert á grunni kerfis sem er rakið hundruði ára aftur í tímann, til tíma lénsveldisins á Englandi.
Það felst í að eignir í umdæmi hertogadæmisins í norðvestur Englandi, sem enginn hefur verið arfleiddur að eða hafa verið í eigu einstæðinga, renna til hertogadæmisins. Á síðustu tíu árum hefur þetta fært hertogadæminu eignir að andvirði um 60 milljóna punda (um 10 milljarðar íslenskra króna).
Fullyrt hefur verið að hertogadæmið gefi megnið af tekjum af þessum eignum til góðgerðarmála. Skjöl sem The Guardian hefur komist yfir sýna hins vegar fram á að svo er ekki. Raunar eru tekjurnar að miklu leyti notaðar til endurbóta á eignum í eigu hertogadæmisins og þar með konungsins sem leigðar eru út í hagnaðarskyni.
Hertogadæmið erfir eignir, sem ekki hafa runnið til neins, á svæði sem á miðöldum sem var kallað Lancashiresýsla. Í dag nær svæðið yfir núverandi Lancashire sýslu þar sem meðal annars eru bæirnir Blackburn og Burnley. Umdæmi hertogadæmisins nær einnig yfir nokkurt landsvæði suður af Lancashire þar á meðal borgirnar Manchester og Liverpool.
Eignir sem arðurinn af þessum eignum sem renna til hertogadæmisins á grunni þessa gamla kerfis hefur verið nýttur til að endurbæta eru meðal annars íbúðarhús í þéttbýli, frístunda hús, íbúðarhús í dreifbýli, byggingar ætlaðar fyrir landbúnað og hlöður. Ein af hlöðunum er notuð til að liðka fyrir skotveiði.
Meðal endurbóta eru ný þök, nýir gluggar, ný kynding og nýjar dyr. Í einu skjali kemur fram að gamalli byggingu á sveitabæ var breytt í hágæða leiguhúsnæði. Annari byggingu á sveitabæ var breytt í skrifstofuhúsnæði.
Heimildarmenn The Guardian staðfesta að arður af eignum látins fólks hafi verið notaður til endurbóta á eignum hertogadæmisins sem nýttar eru í hagnaðarskyni. Þannig hefur sparast talverður kostnaður en allt hefur þetta verið gert með leynd þar til nú.
Þetta hefur gert eignirnar sem leigðar eru út enn arðbærari og því fyllt vasa konungsins enn frekar af peningum í gegnum ágóða af umsvifum hertogadæmisins.
Talsmenn Buckingham hallar segja tekjur af hertogadæminu vera einkamál konungsins. Fyrr á þessu ári fékk hann fyrstu greiðsluna frá því sem handhafi krúnunnar. Nam greiðslan 26 milljónum punda (um 4,5 milljörðum íslenskra króna).
Ýmsir einstaklingar sem áttu eignir sem runnu til hertogadæmisins eftir lát þeirra áttu fasteignir sem voru í niðurníðslu eða bjuggu jafnvel í félagslegu húsnæði. Vinir þessa fólks segja það hreinlega ógeðslegt að arður af eignnum þessara látnu einstaklinga sé nýttur til endurbóta á eignum konungsins.
Talsmaður hertogadæmisins segir arðinn af þessum eignum vera notaðan til að varðveita byggingar sem hafi sögulegt gildi.
Þótt hertogadæmið eigi fjölda landar- og fasteigna víða um Bretland og hafi af þeim mikinn arð borgar það hvorki fyrirtækjaskatt né fjármagnstekjuskatt. Það heldur því fram að stór hluti tekna af eignum látinna sem hafa runnið til þess séu gefnar til góðgerðarmála en reikningar þess sýna fram á að aðeins 15 prósent af þessum tekjum hefur runnið til góðgerðamála