Heimilisbókhald Íslendinga: 20 þúsund krónur í fíkniefni og 7 þúsund í vændi
Sumir halda nákvæmt heimilisbókhald. Þeir sem ekki gera það þurfa þó ekki að örvænta því að Evrópusambandið heldur úti yfirliti yfir heimilisbókhald álfunnar, þar á meðal Íslendinga.
Í nýjum tölum frá Tölfræðistofnun sambandsins kemur fram að Íslendingar hafi meðal annars eytt 2,9 milljörðum króna í vændiskaup á árinu 2022. Þetta gera 7.478 krónur á hvert mannsbarn. Þetta er hærri upphæð en Íslendingar eyddu í póstþjónustu. Hver Íslendingur eyddi aðeins 5.674 krónum í póstsendingar á árinu.
Matur og drykkur er stór útgjaldaliður í heimilisbókhaldi hverrar fjölskyldu. Íslendingar eyddu 255,8 milljörðum í mat og óáfenga drykki. Kostar það 54.974 krónur á mánuði að fæða hvern Íslending eða 1.807 krónur á dag.
Reyndar ekki, því að inn í þessar tölur vantar útgjöld til veitingahúsa og hótela. Sá kostnaður er 63.312 krónur á mánuði eða 2.081 krónur á dag.
Íslendingar eyddu einnig 48,4 milljörðum króna í áfengi árið 2022. Eða 124.820 krónur að meðaltali. Í tóbak fóru 40.489 krónur, tala sem hefur farið lækkandi undanfarin ár. Nokkur aukning hefur hins vegar orðið í fíkniefnakaupum. Samanlögð kaup námu 8,4 milljörðum króna á árinu, eða 21.670 á mann.
Fatnaður er stór útgjaldaliður Íslendinga. Kostaði það 158.088 að klæða hvern Íslending á síðasta ári. Það er fyrir utan skó. Það kostaði 34.300 krónur.
Húsnæðiskostnaður var 788.378 krónur, viðhald fasteigna 39.973 og ýmis önnur þjónusta tengd húsnæði 39.973 krónur á hvert mannsbarn. Rafmagns og eldsneytiskostnaður var 104.692 krónur.
Vitaskuld þarf að innrétta húsnæði. 262.019 krónur fóru í húsgögn og innréttingar, 25.273 í lín og dúka, 42.552 í heimilistæki og 19.600 í borðbúnað. Það þarf líka að hamra þetta allt saman og eyddu Íslendingar að meðaltali 15.216 krónum í verkfæri til þess.
58.800 krónur fóru í ýmsar heilbrigðisvörur og tæki, aðeins 2.063 í spítalaþjónustu en 73.242 í aðra heilbrigðisþjónustu.
Bílakostnaður er ærinn. Hver Íslendingur varði 213.793 krónum í bílakaup á árinu en rúmlega tvöföld sú upphæð fór í rekstur ökutækis, 495.412 krónur.
Aðrar samgöngur rifu minna í budduna. 85.878 krónur á haus á árinu 2022.
Íslendingar eru tækjaóðir. 147.515 eyddu þeir í fjarskiptaþjónustu á árinu og 91.036 í kaup á ýmsum tækjabúnaði, svo sem sjónvörpum, myndavélum eða tölvum.
Þeir eru augljóslega minna fyrir útiveru því að aðeins 60.863 krónum var varið til umhirðu garðs og uppihalds gæludýra.
60.347 krónur fóru í dagblöð, bækur og skrifstofuvörur, 49.257 í menntun, 129.720 í snyrtivörur og sjálfsrækt og 72.725 krónur í pakkaferðir til útlanda.
Tryggingafyrirtækin taka sitt. 55.962 krónur á hvern Íslending tóku þau.