Í hverjum mánuði berast 230 beiðnir að meðaltali um innlögn á sjúkrahúsið Vog. Um 500 til 700 manns eru á biðlista á hverjum tíma.
Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, þingmanns Pírata.
Kemur fram að nokkur hluti fólks afþakki eða mæti ekki í meðferð þegar röðin kemur að þeim. Árið 2022 voru þetta 18 prósent einstaklinga, eða tæplega fimmti hver. 82 prósent þáðu og mættu á Vog þegar röðin kom að þeim.
Í svari Willums kemur einnig fram að biðlistinn hafi styst. Það er að SÁÁ hafi á undanförnum gripið til þess ráðs að koma á fót göngudeild fyrir þá sem ekki þurfa á meðferð vegna fráhvarfa.
„Aðgerðirnar hafa leitt til þess að beiðnum um innlögn á sjúkrahúsið Vog hefur fækkað og biðtími eftir innlögn styst þannig að flestir komast að innan 90 daga viðmiðs embættis landlæknis um biðtíma,“ segir í svari Willums.
Einnig að almennt sé ekki biðlisti á meðferðarstöðinni Vík.
Þá er unnið að því að gera nýjan heildarsamning á milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ sem taki við af fjórum eldri samningum. Innan eins heildarsamnings verði auðveldara fyrir SÁÁ að forgangsraða verkefnum.