Skaðabótakrafa hefur verið gerð á hendur Reykjanesbæ vegna vinnubragða barnaverndarþjónustu sveitarfélagsins í máli móður sem hefur að mestu verið aðskilin frá þriggja ára gömlum syni sínum allt þetta ár, en faðir barnsins tók drenginn af heimilinu og flutti til Austfjarða. Naut faðirinn stuðnings starfsmanna barnaverndarþjónustu Reykjanesbæjar við þessa framgöngu sína. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur gagnrýnt vinnubrögð barnaverndar Reykjanesbæjar í málinu. Barnavernd er sökuð um að hafa byggt afstöðu sína og álit í málinu á einhliða frásögnum föður án þess að hafa samband við móðurina og virða andmælarétt hennar. Vissi móðirin ekki um tilkynningar föður og upplýsingagjöf hans til barnaverndar fyrr en eftir að hann var farinn af heimilinu með soninn, án samþykkis móðurinnar, en með fullri vitneskju barnaverndar.
Konan sleit sambúð við manninn í desember á síðasta ári. Í kjölfarið hélt hann því fram í tilkynningu til barnaverndar að hún væri í neyslu, sagði son þeirra ekki öruggan á heimilinu og falaðist eftir leyfi til að fjarlægja drenginn af heimilinu og flytja með hann í annan landsfjórðung. Þuríður Kristín Halldórsdóttir, lögmaður konunnar, segir þetta vera miklar rangfærslur hjá föðurnum. Konan hafi verið orðin veik eftir langvarandi ofbeldi mannsins og hafi af þeim sökum tekið inn kvíðalyf samkvæmt læknisráði.
Foreldrarnir eru með sameiginlega forsjá yfir drengnum en síðan þessir atburðir áttu sér stað, í janúar á þessu ári, hefur konan ekki fengið að hitta drenginn nema nokkrum sinnum og ávallt mjög stutt í einu.
Konan sakar manninn um ofbeldi gegn sér yfir sex ára tímabil og segist hafa slitið sambandinu vegna þess. Viðbrögð hans hafi verið ósannar tilkynningar og rangar upplýsingar til til barnaverndar og brottnám barnsins af heimilinu í samráði við barnaverndarþjónustu Reykjanesbæjar, sem hafi samþykkt að upplýsa móður ekki um tilkynningar mannsins fyrr en eftir að hann væri farinn af heimilinu með drenginn og segir Þuríður Kristín Halldórsdóttir lögmaður að slík vinnsla barnaverndarmáls sé ólögleg.
Konan bendir á að maðurinn hefur verið greindur með alvarlegan geðsjúkdóm sem getur haft slæm áhrif á velferð sonarins ef hann er í umsjá hans einvörðungu.
Nýlega hafa fallið úrskurðir í héraðsdómi og Landsrétti um lögheimili drengsins til bráðabirgða. Hafa þeir fallið föðurnum í vil og er þar m.a. byggt á áliti barnaverndar Reykjanesbæjar sem grundvallar álit sitt á einhliða frásögn föðurins en leitar ekki afstöðu móðurinnar né haldbærra sannana.
Móðirin kvartaði undan vinnubrögðum barnaverndar við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, GEV. Kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að könnun barnaverndarþjónustu Reykjanesbæjar á máli drengsins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði barnaverndar- og stjórnsýslulaga, þar sem ekki hafi verið haft samband við móðurina og málshraði hafi verið óboðlegur. Telur GEV vinnubrögð barnaverndar hafa verið ámælisverð.
Á grundvelli álits GEV hefur Þuríður Kristín Halldórsdóttir, lögmaður móðurinnar, gert skaðabótakröfu á hendur Reykjanesbæ. Þeirri bótakröfu hefur Reykjanesbær hafnað.
„Vinnubrögð barnaverndar hafa valdið móður barnsins skaða, það var aldrei leitað eftir hennar afstöðu eða sjónarmiðum í málinu og það gagnrýnir GEV. Faðir barnsins var tekinn trúanlegur einhliða og móður ekki veittur andmælaréttur. Það er ólöglegt,“ segir Þuríður í samtali við DV, en hún telur hafið yfir allan vafa að barnavernd hafi brotið lög við vinnslu málsins og framkvæmd.