Skírnir segir að óheillavænleg þróun mannauðsmála innan þjóðkirkjunnar hafi undanfarin ár ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með.
„Starfsfólk hefur sagt frá kuldalegu viðmóti biskupa, hroka og geðþóttaákvörðunum, meintri valdníðslu og illskiljanlegum ákvörðunum. MeeToo-byltingin kemur stundum við sögu, stundum ekki, en oftar en ekki virðast biskupar hafa farið offari í hlutverkum sínum og þar með valdið óbætanlegu tjóni á heilsu fólks og lífshögum.“
Skírnir hefur sjálfur reynslu af þessu og rifjar upp að árin 2011 til 2020 hafi hann sjálfur þurft að standa í leiðinda-málaskaki við biskup Íslands og hennar fólk vegna ásakana um að hann hefði misstigið sig gagnvart þagnarskyldunni – eitthvað sem átti ekki við rök að styðjast.
„Ég var færður til í starfi og seinna meinað að þjóna í nafni þjóðkirkjunnar, sú ákvörðun reyndist lögleysa ein. Biskup varð að greiða mér skaðabætur og allan málskostnað, en mál mitt hafði velkst gegnum Persónuvernd, úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar og seinast gegnum málflutning fyrir héraðsdómi.“
Skírnir bendir á að málskostnaður hafi verið verulegur og segir hann að honum sé fyrirmunað að skilja að kirkjan sjálf skyldi borga kostnaðinn af rekstrarfé sínu, en ekki biskup, sem reyndist ábyrgðaraðili fyrir þeirri „vitleysu og þráhyggju“ sem um reyndist að ræða.
„Þetta tók á, en ég virðist hafa góða andlega heilsu og stuðning margra, svo ég kvarta ekki. Grein þessi er ekki skrifuð í hefndarskyni, né að ég vilji níða skó af fólki, en flest þau sem nefnd eru í grein þessari eru kunningjar mínir, skólasystkin eða samstarfsfólk, beggja vegna borðs. Nú er það svo að biskup og hennar fólk klifar á að þau séu ekki sammála úrskurðarnefndum eða öðrum nefndum, svo sem jafnréttisnefnd, siðanefnd o.s.frv. – nema þegar þeim háu herrum hentar. Þetta sýna nýleg dæmi.“
Skírnir segir að hafandi upplifað þessi furðulegheit árum saman hafi hann smám saman farið að horfa í kringum sig, enda sjaldan ein báran stök.
„Væru fleiri en ég að glíma við sömu hlutina? Ég vissi náttúrlega um aðra presta og starfsfólk þjóðkirkjunnar sem orðið höfðu fyrir barði á biskupi, slæmum stjórnsýsluháttum, handahófskenndum ákvörðunum – og í sumum tilfellum hreinu stjórnsýslulegu klúðri eða ofbeldi. En að hér væri svo mikið grugg vissi ég ekki fyrr en nýverið,“ segir hann og bætir við:
„Afrakstur þessarar forvitni minnar eru sláandi dæmi um feiknalegt óréttlæti, mismunun, kúgun og það sem kalla verður valdníðslu, svo tæpitungulaust sé talað. Meintir gerendur eru biskuparnir sr. Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Karl Sigurbjörnsson, fyrirrennari hennar, ásamt biskupsriturum, vígslubiskupum, lögfræðingum og mannauðsstjórum.“
Skírnir kveðst hafa skoðað ýmis mál sem öll eigi það sameiginlegt að biskupar ákváðu hitt og þetta án aðkomu dómstóla. „Málin skilja eftir sig slóð af sársauka, vanlíðan, jafnvel heilsumissi og ótímabærum andlátum.“
Skírnir segir þetta vera alvarlegt mál sem krefjist skoðunar.
„Fólk sem árum saman aflar sér prestsmenntunar, starfar af heilindum í söfnuðum sínum og á fjölskyldur og ættmenni sem hjálpa til við uppbyggjandi og heilladrjúgt starf innan kirkjunnar á það ekki skilið að vera kastað út sí-svona, eins og í sumum tilfellum er staðreynd.“
Hann segir að þó svo að í einhverjum tilvikum einhverjum prestanna hafi orðið eitthvað lítils háttar á í messunni sé samt sem áður mikilvægt að gæta meðalhófs og sanngirni. Því megi segja að biskupar hafi brugðist því hlutverki sínu að sýna prestum skilning, vináttu og veita þeim aðstoð.
„Athugum það að enginn prestanna hefur verið dæmdur fyrir nokkurn skapaðan hlut, en einhverjir ofannefndra hafa fengið á sig minni háttar kvartanir – ekki þó allir – það eru nú öll ósköpin. Þetta gengur bara ekki upp að haga sér svona, biskupar og biskupsritarar,“ segir Skírnir sem boðar frekari umfjöllun um málið.
„Ég mun í næstu grein birta nöfn nokkurra presta sem ég tel að hafi orðið fyrir miklu ranglæti af hálfu biskupa þjóðkirkjunnar, mannauðsstjóra og biskupsritara. Þá mun ég birta yfirlit yfir ýmislegt sem kastar ljósi á meinta lögleysu af hendi þeirra. Næsta grein mun birtast fljótlega.“