Annar tveggja manna sem situr í gæsluvarðhaldi vegna skotárásar í Úlfarsárdal 2. nóvember var stunginn sjö sinnum með eggvopni á Litla-Hrauni í dag, samkvæmt frétt Nútímans. Samkvæmt heimildum Nútímans var árásarmaðurinn einn af betri vinum þolandans skotárásarinnar í Úlfarsárdal.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand árásarþolans.
Vísir greindi fyrst frá árásinni. Hún mun hafa átt sér stað milli kl. 13 og 14 í dag og eru lögreglumenn að störfum á vettvangi. Árásarþolinn var fluttur á sjúkrahús.
Lögreglan á Suðurlandi segir að tilkynning um málið verði birt síðar í dag.
Lögreglan hefur birt eftirfarandi tilkynningu um málið:
„Skömmu fyrir klukkan 14:00 í dag barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um að fangi í Fangelsinu Litla-Hrauni hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás af hálfu annars fanga. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru á vettvang og var sá er fyrir árásinni varð fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrastofnun til aðhlynningar. Rannsókn málsins er á frumstigi og verða frekari upplýsingar um málið ekki veittar að sinni.“