Lögreglan á Vestfjörðum er með til rannsóknar þjófnaðarmál og óskar eftir aðstoð frá fyrirtækjum og almenningi vegna þess. Í Facebook-færslu lögreglunnar sem birtist í gær segir:
„S.l. helgi var þjófnaður í Bolungarvík. Lögreglan á Vestfjörðum er með málið til rannsóknar og óskar eftir upplýsingum um grunsamlegar mannaferðir á svæðinu frá eftirmiðdegi föstudags til klukkan 21:30 á laugardagskvöldinu. Einnig óskum við eftir að fá upplýsingar um hvort einhver fyrirtæki og/eða einkaaðilar búa yfir myndefni úr öryggismyndavélakerfum sem gætu nýst við rannsókn málsins. Þá horfum við líka til leiðarinnar frá Bolungarvík og út af norðanverðum Vestfjörðum, hvort einhver eigi myndefni af þeirri leið sem gæti nýst við rannsóknina.
Ef þið teljið að upplýsingar sem þið hafið geti nýst við rannsókn málsins megið þið endilega gera okkur viðvart í tölvupósti á vestfirdir@logreglan.is eða í síma 444-0400.“
Í nýrri tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að umræddur þjófnaður nemur mörgum milljónum króna. Í tilkynningunni segir:
„Lögreglan á Vestfjörðum óskar eftir öllum þeim upplýsingum sem fólk getur mögulega búið yfir vegna þjófnaðarins í Bolungarvík s.l. helgi. Ljóst er að andvirði þess sem var stolið hleypur á mörgum milljónum. Teknir voru svokallaðir GPS hattar af vinnuvélum í eigu verktaka í bænum.
Ef einhver býr yfir upplýsingum sem gætu nýst má endilega senda okkur tölvupóst á vestfirdir@logreglan.is eða í síma 444-0400.“