Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Kjartan að frumvarp að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2024 sýni að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hafi engin tök á fjármálum borgarinnar.
„Reksturinn er ekki sjálfbær og stendur borgin frammi fyrir miklum skuldavanda. Samt hyggst vinstri meirihlutinn halda áfram að safna skuldum og er áætlað að þær verði orðnar 515 milljarðar króna í árslok 2024. Hvað er til ráða? Borgarstjórn verður að ná samstöðu um raunverulegar aðgerðir til að koma rekstrinum í jafnvægi og stöðva skuldasöfnun.“
Kjartan segir að þegar rekstur borgarinnar er skoðaður sjáist að víða er bruðlað og hægt væri að ná miklum árangri við sparnað og hagræðingu ef vilji væri fyrir hendi.
„Yfirstjórn Reykjavíkurborgar gæti byrjað að spara hjá sjálfri sér enda hefur kostnaður við hana aukist mjög á undanförnum árum. Víða væri hægt að hagræða í yfirbyggingu Reykjavíkurborgar án þess að það kæmi niður á þjónustu við íbúa.“
Kjartan segir það ekki koma á óvart að erfiðlega gangi að spara víða í borgarkerfinu þegar hvergi er sparað í yfirstjórninni og kostnaður eykst ár frá ári. Bendir hann á að áætlað sé að rekstur miðlægrar stjórnsýslu borgarinnar muni nema 2.279 milljónum á næsta ári og aukist um 18% á milli ára. Kostnaður við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hækki um 22% og kostnaður við „samskiptamál“ rúmlega tvöfaldist í 190 milljónir króna. Þá eigi að verja 91 milljón í „markaðs- og viðburðamál“.
Hann bendir svo á að kostnaður við rekstur skrifstofu borgarstjórnar muni samkvæmt frumvarpinu hækka um 28% á milli ára og fara í 804 milljónir á næsta ári.
„Fjárveitingar til skrifstofu borgarstjórnar eru að meginstefnu nýttar í launakostnað kjörinna fulltrúa, þ.e. 23 borgarfulltrúa og átta varaborgarfulltrúa. 31 fulltrúi er því á fullum launum við að sinna borgarmálum, sem er langtum meiri fjöldi en þekkist á Vesturlöndum í borgum af svipaðri stærð og Reykjavík. Augljóst er að mikil hagræðing næðist með því að fækka borgarfulltrúum á ný, t.d. í fimmtán eins og tíðkaðist lengi vel. Að auki yrði verulegur afleiddur sparnaður af slíkri breytingu því hún myndi draga úr umfangi og flækjustigi annars staðar í borgarkerfinu.“
Kjartan segir í grein sinni að til að unnt sé að ná þessari breytingu í gegn þurfi lagaheimild frá Alþingi. Segir hann að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi hvað eftir annað lagt til að borgarstjórn beiti sér fyrir slíkri breytingu en hingað til hafi slíkar tillögur verið felldar af vinstriflokkunum.
„Með því að beita sér fyrir fækkun borgarfulltrúa myndi borgarstjórn sjálf ganga á undan með góðu fordæmi varðandi þá víðtæku hagræðingu sem þarf að eiga sér stað í borgarkerfinu,“ segir Kjartan í Morgunblaðinu.