Guðmundur segir frá þessu á Facebook-síðu sinni en hann var á leið í útgáfuhóf Sigríðar Hagalín Björnsdóttur sem fram fór í Tólf tónum í síðdegis í gær vegna bókarinnar DEUS sem komin er út.
Í færslu sinni viðurkennir Guðmundur að hann hafi verið að flýta sér þegar hann sá autt stæði á Skólavörðustígnum. Segist hann hafa smeygt bílnum í það léttilega og skondrað léttur á fæti í hófið sem var fjölmennt og skemmtilegt.
„Kom svo til baka og hafði þá fengið miða undir rúðuþurrkuna og hugsaði: nújæja. Á daginn kom að bíllinn sneri öfugt í stæðinu þarna á Skólavörðustígnum og sektin reyndist vera 10.000 krónur. Segi og skrifa. Fyrir bíl sem snýr öfugt í stæði þegar nálgast kvöld,“ segir Guðmundur Andri.
Eðli málsins samkvæmt var hann ekki ánægður með sektina.
„Það var eins og ég hefði vanhelgað kirkjurými, haft í frammi háreysti í jólamessunni, eyðilagt listaverk; gert eitthvað frámunalegt og óheyrilegt sem þyrfti harða og eftirminnilega refsingu … 10.000 krónur! Hver yrði sektin ef ég gerði nú raunverulega eitthvað af mér?“