Maðurinn var ákærður fyrir að hafa þann 16. september 2021 blekkt notanda Bland.is með því að auglýsa til sölu síma af gerðinni iPhone XR.
Kaupandinn greiddi fyrir símann samdægurs, 30 þúsund krónur, og var upphæðin lögð inn á bankareikning mannsins. Seljandinn sem ákærður var afhenti hins vegar aldrei símann en notaði peningana í eigin þágu.
Maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins og lá því afstaða hans til ákærunnar ekki fyrir. Eins og venja er var málið samt tekið til dóms og þótti hæfileg refsing 30 daga fangelsi og er dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára.