Í aðsendri grein á Vísi sem birt var fyrr í dag svarar Birgir Þórarinsson alþingismaður fullyrðingum fólks um að hann hafi ekki sagt satt þegar hann hafi fullyrt að í ferð sinni til Ísrael og Palestínu hafi hann séð myndbönd, úr búkmyndavélum Hamas-liða, af börnum sem voru afhöfðuð í árás Hamas á Ísrael, 7. október síðastliðinn. Meðal þeirra sem hafa sagt Birgi fara með fleipur er Sverrir Agnarsson sem hefur krafist þess að Birgir dragi orð sín til baka. Sverrir fullyrðir að engar sannanir séu fyrir því að Hamas-liðar hafi afhöfðað börn. Í grein sinni endurtekur Birgir fullyrðingar sínar og segist sannarlega hafa séð myndbönd af afhöfðunum.
Birgir segir í greininni frá heimsókn sinni, en hann var einn af 16 þingmönnum frá ýmsum Evrópulöndum í ferðinni. Hann lýsir þeim hluta heimsóknarinnar sem var á ísraelskt samyrkjubú sem Hamas réðst á:
„Ég hlustaði á frásagnir ættingja sem lifðu af árásir og vitna um þennan ólýsanlega hrylling. Við sáum myndband sem liðsmenn Hamas tóku upp með búkmyndavélum sem sýnir hroðaverkin. Það hefur m.a. verið sýnt í breska þinginu. Ég gat ekki horft á það allt sökum hryllings. Má þar nefna þegar barnshafandi kona var skorin lifandi á kvið, fóstrið tekið og afhöfðað. Nokkrir þingmenn horfðu á það. Kornabarn var sömuleiðis afhöfðað og hefur höfuð þess ekki fundist. Unglingur var afhöfðaður með garðyrkjuverkfæri. Fjölskyldur voru brenndar lifandi. Konum var nauðgað. Enn hefur ekki verið hægt að bera kennsl á um 100 lík vegna bruna. Þar á meðal eru börn. Við sáum sömuleiðis kæligám sem hafði að geyma fjölmarga líkamsparta. Þeir sem ekki hafa séð eða heyrt af þessum hryðjuverkum Hamas geta ekki gert sér í hugarlund hvers konar viðurstyggð er hér á ferð.“
Hann segir fullyrðingar um að hann fari með ósannindi um afhöfðanir vera verulegt áhyggjuefni:
„Þannig eru drápin orðið aukaatriði en aðferðin aðalatriðið. Ummælin verðskulda ekki andsvör. Staðreyndirnar liggja fyrir. Það er mikið áhyggjuefni þegar jafnvel velviljaðir einstaklingar afneita óhæfuverkum hryðjuverkasamtakanna Hamas gagnvart saklausu fólki, konum og börnum í Ísrael. Þeir hafa ekki farið á staðinn, ekki séð með eigin augum storknaða blóðpolla í barnarúmum, ekki hlustað á vitnisburði fólks sem sá voðaverkin og á um sárt að binda. Ekki séð myndbandsupptökur liðsmanna Hamas af voðaverkunum, sem eru jafnvel verri en illræmd ódæði hryðjuverkasamtakanna ISIS.“
Birgir segist að lokum vona að augu þeirra sem saki hann um ósannindi opnist og að þetta fólk rísi upp og fordæmi hryðjuverk gegn saklausu fólki óháð þjóðerni og trú.