Jón Þorgeir Hallgrímsson yfirlæknir er látinn, 92 ára að aldri. Jón Þorgeir lést að morgni þriðjudagsins 21. nóvember að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hann fæddist í Reykjavík 20. ágúst árið 1931 og var mörgum Íslendingum kunnur fyrir störf sín í þágu læknavísindanna. Eftir að hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1959 lauk hann sérnámi í Danmörku og Svíþjóð og varð sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp árið 1966.
Hann starfaði á fæðingar- og kvensjúkdómadeild Landspítalans og varð síðar yfirlæknir sömu deildar og sviðsstjóri kvenlækningasviðs Ríkisspítala. Hann vann á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um árabil og var í hópi frumkvöðla í forvörnum krabbameina kvenna.
Jón Þorgeir var lektor og síðan dósent í fæðingar- og kvensjúkdómafræðum við læknadeild Háskóla Íslands. Þá kenndi hann við Ljósmæðraskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt.
Eiginkona Jóns Þorgeirs var Steingerður Þórisdóttir en hún lést 2015. Þau eignuðust fimm börn. Eftirlifandi sambýliskona Jóns Þorgeirs er Guðrún Gyða Sveinsdóttir.