Farið var ítarlega yfir málið í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi og á vef RÚV í gærkvöldi.
Kristín, sem er fagstjóri jarðar og eldgosa hjá Veðurstofunni, lýsti því að hún hefði fengið símtal undir kvöld þegar skjálftavirknin hafði aukist mikið. Eins og komið hefur fram var hamagangurinn mikill í Grindavík og stöðug skjálftahrina sem virtist engan endi ætla að taka.
Kristín segist hafa skoðað skjálftaritin í tölvunni. „Þá sé ég bara, það er bara stór skjálfti, stór skjálfti, það eru margir stórskjálftar á mínútu. Þannig að þá allt í einu fatta ég, þetta er rosalega stór atburður sem er bara dúndrandi hérna yfir.“
Eðli málsins samkvæmt var Kristínu brugðið þegar hún áttaði sig á því að upptök skjálftanna voru beint undir Grindavík. Ljóst hafi verið að ekki væri um spennuskjálfta að ræða heldur gæti kvika verið að brjóta sér leið upp á yfirborðið.
„Og Grindvíkingar myndu fara að sofa þarna ofan á þessu í nótt, það er ekkert hægt,“ sagði Kristín sem ræddi við kollega sinn sem var á vakt. „Ég segi, við þurfum að hafa samband við Almannavarnir, hringjum bara inn í Almannavarnir,“ sagði hún en það var gert þegar klukkan var um 19 á föstudagskvöld.
Í Kveik í gærkvöldi var farið ítarlega yfir atburðarás síðustu daga og meðal annars rætt við Pál Einarsson jarðeðlisfræðing um það sem er að gerast á Reykjanesskaga og hvað gæti mögulega gerst í framtíðinni. Þá var rætt við fjölskyldur úr Grindavík sem margar hverjar eru í afar erfiðri stöðu þessa dagana enda óvissan mikil.