Holt var umsjónarmaður lítils hjólhýsasamfélags í Hinsdale í New Hampshire þar sem hann bjó, líkt og nágrannar og vinir, í látlausu hjólhýsi sem lét ekki mikið yfir sér.
Það sem enginn vissi var að Holt var margfaldur milljónamæringur og hefði auðveldlega getað búið í glæsilegasta húsi bæjarins, ef hann hefði viljað það. Holt lést fyrr á þessu ári og fékk bærinn Hinsdale að njóta góðs af þeim tæpu fjórum milljónum Bandaríkjadala sem Holt átti inni á reikningi.
„Hann virtist eiga allt sem hann vildi sem að vísu var ekki mikið,“ segir Edwin Smith, besti vinur Holts í samtali við AP.
Holt átti ekki bíl og inni í sjálfu hjólhýsinu hans var lítið um húsgögn, ekkert sjónvarp og engin tölva til dæmis. Fór hann á milli staða annað hvort á reiðhjóli eða á lítilli sláttuvél sem hann ók um svæðið. Milli þess sem hann dyttaði að hinu og þessu í hjólhýsahverfinu sat hann og gluggaði í dagblöðin.
Holt skildi eftir sig 3,8 milljónir Bandaríkjadala, rúmar 530 milljónir króna, og í erfðaskrá hans kom fram að öll upphæðin ætti að renna til Hinsdale. Vildi hann að peningarnir færu í að efla mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnanir bæjarins.
„Ég held að enginn hafi haft hugmynd um að hann ætti svona mikinn pening,“ segir Steve Diorio, bæjarfulltrúi í Hinsdale. Segir hann að bæjaryfirvöld séu óendanlega þakklát fyrir gjöfina sem á eftir að reynast vel.
Fjármálastjóri Hinsdale, Kathryn Lynch, segir að bærinn muni vanda mjög til verka þegar kemur að því að nota peningana. Holt lést í sumar 82 ára að aldri en í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að hann hafi hagnast á skynsamlegum fjárfestingum í gegnum ævi sína.