„Höfuðborgarsvæðið er skipulagt fyrir bíla, ekki fólk. Það virðist seint ætla að breytast og þess vegna er allt eins gott að kaupa bara bíl,“ sagði Skúli sem festi kaup á nýjum rafmagnsbíl frá Kia fyrir um mánuði síðan.
„Aldrei hélt ég að ég myndi kaupa nýjan bíl. Og raunar hafði ég ætlað mér að komast sem lengst af án þess að eiga bíl yfirhöfuð. En ég entist einfaldlega ekki lengur. Hér fylgir stutt og kannski á köflum dramatísk reifun á ástæðum þess, sem er vís til að ergja liðsmenn beggja þeirra fylkinga sem rífast um skipulagið á höfuðborgarsvæðinu. Farið er um víðan völl og eru lesendur jafnframt varaðir við því,“ segir Skúli.
Skúli segir meðal annars frá því að hann hafi flutt til Vínarborgar árið 2019 og þar hafi verið ótrúlega auðvelt að komast á milli staða án þess að eiga bíl.
„Í Vín eru almenningssamgöngur nefnilega í hávegum hafðar. Sama hvar maður er staddur, þá er maður aldrei langt frá næsta sporvagni, strætisvagni eða neðanjarðarlest. Alla þessa samgöngumáta nýtti ég í hverri viku.“
Á Íslandi er málið aðeins flóknara og voru það því talsverð viðbrigði fyrir hann þegar hann flutti aftur heim til Íslands og á höfuðborgarsvæðið.
„Þrátt fyrir að Ísland sé nánast borgríki með risastóran og fallegan þjóðgarð þá er höfuðborgarsvæðið skipulagt með þeim hætti að nær allir þurfa bíl til að geta lifað eðlilegu lífi,“ segir hann í grein sinni.
Einhverjir kynnu að spyrja hvers vegna Skúli notar þá ekki strætó í stað þess að kaupa sér bíl. „Eðlileg spurning. Kannski er svarið það líka. Að fenginni reynslu af viðskiptum við Strætó forðast ég eins og heitan eldinn að gefa þessu byggðasamlagi peningana mína, sem hafa jafnvel verið inntir af hendi í skiptum fyrir ekki neitt.“
Skúli rekur svo raunir sínar og erlendra kollega sinna sem hafa slæma reynslu af strætisvagnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Hann segist hafa velt því fyrir sér að kaupa rafhjól eða halda áfram að ganga til og frá vinnu en svifryksmengun, sem dregur um 80 manns til dauða hér á landi á hverju ári og má að einhverju leyti rekja til nagladekkjanotkunar borgarbúa, hafi gert þann kost óaðlaðandi.
„En sannast sagna nennti ég heldur ekki öðrum vetri af því að strita við að komast til vinnu. Nóg er stritið nú þegar“ segir hann í grein sinni sem nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.
Má til með að benda á þessa stórgóðu grein sem birtist, af öllum stöðum, í Bílablaði Moggans (!!) í dag. Höfundur fer yfir samgöngulandslagið á Íslandi, sem ýtir fólki miskunnarlaust í einkabíla, hvort sem því líkar betur eða verr. Kann ekki við að birta allt saman en bara BRAVÓ! pic.twitter.com/lsoGg871Us
— Björn Teitsson (@bjornteits) November 21, 2023