Um 165 jarðskjálftar, allir undir 2 að stærð, hafa mælst frá miðnætti við kvikuganginn á Reykjanesskaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
„Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hefur hraðinn á risinu í Svartsengi haldist nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn,“ segir í tilkynningunni.
Veðurstofan mun halda áfram að vakta svæðið ötullega og endurmeta og túlka gögn sem berast. Hvassviðri og úrkoma eru talin geta dregið úr næmni mælitækja og hvassviðri sem núna gengur yfir svæðið hefur þarna áhrif.