fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Gyðingasamtök töpuðu máli gegn íslensku hýsingarfyrirtæki – Vildu lögbann á vefsíðu

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 21. nóvember 2023 12:30

Kortlagning heimilisfanga og starfsstöðva gyðinga fór fyrir brjóstið á ADL. Mynd/skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kröfum gyðingasamtakanna Anti Defamation-League gegn (ADL) hýsingarfyrirtækinu 1984 var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn féll þann 8. nóvember síðastliðinn en var birtur í dag.

Málið snýst um síðuna The Mapping Project sem hýst er hjá 1984. Þar eru meðal annars listuð upp heimilisföng hjá stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast gyðingum í Massachusetts fylki sem og nokkrum stjórnmálamönnum. ADL og fleiri hafa lýst síðunni sem haturssíðu. Á síðunni stendur:

„Markmið okkar með þessari heildarkortlagningu var að varpa ljósi á niðurbrotsfélög og samtök til þess að gera okkur kleift að uppræta þau. Sérhvert félag hefur heimilisfang –unnt er að uppræta öll samtök.“

Samtökin bandarísku kröfðust þess að felld yrði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá því í maí síðastliðnum um að hafna beiðni um lögbann og að lögbann yrði sett á síðuna.

Gyðingar séu skotmark

Í dómnum segir að í meginatriðum greini aðila á um hvort síðan feli í sér hatursorðræðu og brot gegn friðhelgi einkalífsins eða hvort um sé að ræða tjáningu sem varin er af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.

ADL telja að síðan beri einkenni hatursorðræðu, kynþátta- og gyðingahaturs. Með upplýsingum um heimilisföng og starfsstöðvar sé verið að gera gyðinga að skotmarki. „Efni vefsíðunnar verði ekki túlkað með öðrum hætti en sem beinar hótanir eða hvatningar til brota gegn réttindum annarra, sem sóknaraðili túlki sem hvatningu til refsiverðrar háttsemi, s.s. ofbeldis og/eða skemmdaverka, gagnvart þeim sem tilheyra samfélagi gyðinga í borginni og nágrenni hennar,“ segir í dóminum.

Ekki nóg að síða sé óþægileg

1984 telja að tjáningarfrelsi þjónustuþega hans vegi þyngra en ætlaðir hagsmunir ADL í þessu máli. Einnig að síðan feli ekki í sér hatursorðræðu eða gyðingahatur og þar sé ekki að finna hvatningu til ofbeldis.

Hvorki lögreglan hér á Íslandi né í Bandaríkjunum hafi brugðist við síðunni. Lénsskráningarfyrirtækið GoDaddy hafi ekki amast við síðunni eftir nákvæma skoðun.

„Við lestur síðunnar megi sjá að um gríðarlega vandaða og ítarlega umfjöllun er að ræða, þ.m.t. um starfshætti sóknaraðila. Það eitt að umræðan sé óþægileg fyrir varnaraðila þýði ekki að unnt sé loka á hana með lögbanni,“ segir í dóminum. ADL hafi í áratugi beitt sér gegn einstaklingum, samtökum, ríkjum og skoðunum manna.

Friðhelgi einkalífsins ónægilega reifuð

Eins og áður segir hafnaði dómari kröfum ADL í málinu. Ekki var á það fallist að á síðunni væri fólgin hatursorðræða og yrði fallist á kröfuna myndi það þýða takmörkun á tjáningarfrelsinu. Ekki sé nægilega vel reifað að friðhelgi einkalífsins trompi tjáningarfrelsið í þessu tilfelli.

Jonathan Greenblatt forstjóri ADL. Mynd/Getty

„Samkvæmt öllu framanrituðu hefur sóknaraðili hvorki sýnt fram á né gert nægilega sennilegt að uppfyllt sé það skilyrði lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að sú athöfn sem felst í hýsingu varnaraðila á umræddri vefsíðu og þar með veitingu aðgangs að henni, brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum réttindum hans. Þess utan hefur sóknaraðili lítt leitast við að sýna fram á hvaða réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að leita dóms um þau eftir hefðbundnum leiðum, en ekki dugar í því efni að vísa til hættu á hugsanlegum árásum ofstækismanna, sem kynnu að eiga sér margþættar skýringar,“ segir í niðurstöðunni.

Var ADL gert að greiða 1984 1,3 milljónir króna í málskostnað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum
Egill Þór er látinn
Fréttir
Í gær

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir