„Þegar maður lendir í svona áfalli sem brottrekstur úr starfi er þá er rosalega gott að komast til ráðgjafa sem hefur trú á manni og gefur manni þá vissu að staða manns muni breytast til hins betra. Ráðgjafinn sagði við mig: „Það er eðlilegt að gráta. Það er eðlilegt að vera reiður. Og það er eðlilegt að skammast sín fyrir að vera ekki að vinna.“
Mér fannst hræðilegt að vera komin í þá stöðu að vera fjárhagslega háð manninum mínum, það hafði ég aldrei verið fyrr – alltaf unnið og haft tekjur. Tekjumissirinn hafði slæm áhrif á sjálfsmyndina. Það var ótrúlega erfitt að segja: „Ég á engan pening – getur þú lagt inn á mig?“ Ég hef alltaf staðið mína plikt en var allt í einu komin bara heim og hafði engin verkefni önnur en heimilisstörf,“
segir Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ í viðtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur í blaði VIRK en hún nýtti sér þjónustuna þar fyrir nokkrum árum. Hún segist vilja deila reynslu sinni af því sem gerðist eftir atvinnumissinn þegar hún fylltist mikilli vanlíðan, hvernig henni tókst að bæta sjálfsmynd sína og heilsu og finna nýtt starf í fyllingu tímans.
„Ég vann á karllægum vinnustað þar sem voru stjórnunarhættir sem létu mér líða illa. Orsök þess að ég hætti á mínum karllæga vinnustað var vöntun á samskiptum. Ég bý á Akureyri og starfaði þar en svo vildi þessi vinnustaður færa mig til í starfi og staðsetningu án samtals við mig. Ég neitaði að láta flytja mig til án samráðs og það leiddi til þess að mér var sagt upp. Á karllæga vinnustaðnum var aftur á móti litið svo á að ég hefði sagt upp. Sem sagt; það var ósamkomulag um starfslok mín. Í framhaldi af því leitaði ég strax til stéttarfélags míns. Það hóf málsókn og ég sótti rétt minn. Ég vann þetta mál en allt þetta ferli leiddi hins vegar til þess að ég varð óvinnufær.“
Anna Hildur segir það minnisstætt þegar dóttir hennar kom heim og hún hafði varla farið á fætur í sex vikur. Hún sagði: „Mamma við erum ekki vanar að sjá þig svona.“ Þá varð mér ljóst að ég þyrfti virkilega að leita mér aðstoðar. Ég gerði það sem fyrr sagði og vil taka það fram að mér fannst ekki erfitt að leita til VIRK, síður en svo. Vanvirkni mín leiddi til þess til þess að ég dró mig í hlé og átti erfitt með að taka ákvarðanir varðandi sjálfa mig, hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að fylla upp í daginn, ef svo má að orði komast.“
Anna Hildur leitaði einnig til sálfræðings og segir það hafa hjálpað sér að vinna úr áfallinu og höfnunartilfinningunni sem það olli henni. „Ég uppgötvaði hve starfið mitt hafði verið tengt minni persónu og sjálfsmynd. Þegar starf sem er manni svona mikils virði er tekið frá manni þá fer maður að efast um sjálfan sig. Það er erfitt. Mér fannst ég ómöguleg úr því mér var sagt upp.“
Hún segir litið til baka margt neikvætt hafa gerst á sama tíma: „Ég missti vinnuna, ég varð vanvirk og mamma greindist með heilabilun. En hins vegar var ýmislegt jákvætt, svo sem að þar sem ég var ekki að vinna þá gat ég sinnt mömmu betur og ég tel líka að uppsögnin hafi á endanum verið til góðs. Ég losnaði úr mjög karllægu umhverfi og það var heppilegt fyrir mig. Ég hafði áður unnið mikið og af hugsjón en við þessa breytingu þá hætti ég að tengja sjálfsmyndina við starf í sama mæli og ég hafði áður gert.“
Viðtalið og bjargráðin sem Anna Hildur nýtti sér má lesa í heild sinni hér.