„Ég vil nota tækifærið og fá að þakka þér, Katrín, fyrir styrka stjórn á forsætisráðherrastóli þessi umbrotaár. Ráðherrarnir hafa verið alls konar en óhvikandi stuðningur þinn við allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefur sýnt okkur hver stendur í brúnni. Eins og þú hefur svo oft sagt sjálf þá skiptir máli hver stjórnar,“ segir Atli í aðsendri grein á vef Vísis í morgun og telur svo upp fjölda atriða sem hann er „þakklátur“ fyrir.
Hér að neðan má sjá brot úr skrifum hans.
„Takk fyrir að hafa staðið vörð um fyrirtækin okkar í heimsfaraldrinum. Fyrir að hafa styrkt, um hundruð milljóna, aðila í ferðaþjónustu á borð við Icelandair og Bláa lónið sem höfðu sýnt ráðdeild og ekki greitt eigendum sínum nema um ellefu milljarða í arð árin áður en kófið skall á.“
„Takk fyrir að hafa búið svo um hnútana að fiskeldisfyrirtækin þurfi ekkert að borga fyrir afnot sín af landi og sjó, ekki nema í allra mesta lagi til að standa undir kostnaði ríkisins af eftirliti. Takk fyrir að hlusta ekki á náttúruverndarsamtök og þeirra svörtu spár um áhrif eldisins á umhverfið og lífríkið undanfarin ár. Það var auðvitað miklu betra að bíða þar til þær raungerðust.“
„Takk fyrir að hafa fjölgað ráðuneytunum. Breytingarnar munu kosta um tvo milljarða á þessu kjörtímabili en það er vissulegra skemmtilegra á fundum ef fleiri eiga sæti við ríkisstjórnarborðið.“
„Takk fyrir aðgerðaleysið í húsnæðismálum. Það muna koma sér vel í ljósi atburðanna í Grindavík. Takk fyrir að setja ekki á leiguþak. Takk fyrir að undirrita húsnæðissáttmála en karpa svo við borgina um hvar megi og eigi að byggja svo það komist örugglega ekkert af stað. Takk fyrir að hlífa öðrum sveitarfélögum við uppbyggingu.“
„Takk fyrir að halda fjármagnstekjuskattinum lágum en virðisaukaskattinum háum. Takk fyrir lágar bætur en há gjöld í heilbrigðis- og menntakerfinu. Takk fyrir að leyfa efstu tíundinni að auðgast æ meir ár frá ári meðan venjulegt fólk neyðist til að spara við sig í mat og mörg okkar horfa upp á vanskil í gölnu vaxtaumhverfi.“
„Takk fyrir að standa við bakið á Bjarna í bankasölumálinu. Takk fyrir að sýna okkur að vanhæfir ráðherrar þurfa bara að skipta um sæti við sessunaut sinn til að teljast hafa axlað ábyrgð. Setur mjög gott fordæmi.“
Atli telur upp mun fleiri atriði sem hann kveðst vera þakklátur fyrir og má lesa alla greinina á vef Vísis.