fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Læknar vara við nýju einkafyrirtæki: „Siðlaust“ fyrir allar 300 þúsund krónurnar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. nóvember 2023 17:00

Myndin er samsett. Efst til hægri er Sigurdís Haraldsdóttir og neðst er Margrét Ólafía Torfadóttir. Fyrir miðju er Jón Magnús Jóhannesson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverðrar óánægju gætir með nýtt fyrirtæki, Intuens, sem býður upp á heilskimun fyrir viðskiptavini. Heilskimunin felur í sér segulómskoðun á öllum líkamanum og kostar fyrsta heilskimunin 300 þúsund krónur.

Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags heimilislækna, og Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir á Landspítala og krabbameinslæknir, mættu til dæmis í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem þær ræddu nýja fyrirtækið. Fleiri læknar hafa gagnrýnt fyrirtækið, til dæmis á samfélagsmiðlum.

Bíðum ekki eftir að tennurnar detti

Í umfjöllun í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kom fram að Intuens nýti nýjustu tækni til að gefa yfirgripsmikið yfirlit um ástand líkamans. Þá sé hægt að varpa ljósi á kvilla og sjúkdóma.

„Við vitum það að ótal sjúkdómar sem eru mjög hættulegir eru einkennalausir á fyrstu stigum og það er stigið sem við myndum vilja finna þá á. Það dregur þá úr íþyngjandi meðferðum, eykur lífsgæði þeirra sem fá sjúkdóminn, það er auðveldara að lækna hann, það er ódýrara að lækna hann. Gróft dæmi er að við bíðum ekki eftir því að tennurnar detti úr okkur, við förum til tannlæknis,“ sagði Torfi G. Yngvason, meðstofnandi Intuens í Viðskiptablaðinu.

Líkur á að eitthvað finnist sem veldur ekki skaða

Í viðtalinu í Bítínu, sem fjallað var um á vef Vísis í morgun, benti Margrét á að ýmislegt geti fundist þegar líkaminn er heilskimaður. Hjá allt frá einum fimmta upp í rúmlega helming komi eitthvað í ljós sem er ekki eins og það ætti að vera.

„Hvort sem það er eitthvað alvarlegt eða ekki, oftast er það ekki alvarlegt sem betur fer, þá þýðir það samt að það þarf að rannsaka það með frekari rannsóknum, jafnvel myndrannsóknum sem valda geislun og geta þannig aukið hættu á krabbameini, með inngripum, eftirliti, meðferð. Jafnvel stórum inngripum, svo sem aðgerðum eða sýnatökum sem geta haft skaðlegar afleiðingar fyrir heilsuna. Þannig að þarna fer fólk inn í von um að fá ákveðinn heilbrigðisstimpil en allar líkur eru á að eitthvað finnist sem myndi aldrei valda því skaða ef það vissi ekki af því.“

Sagði Margrét að rannsóknir á borð við þessa þurfi að bæta líf og líðan fólks en rannsóknir sýni að svona heilskimanir geri það ekki. Af þeirri ástæðu hafi fagfélög lækna um allan heim mælt gegn þessari gerð af skimunum.

Áhyggjur af markaðssetningunni

Sigurdís tók í svipaðan streng og sagði rannsóknir sem þessar hafa lítið upp á sig fyrir almenning sem almennt er í lágri áhættu að fá krabbamein.

„Í raun og veru höfum við talsverðar áhyggjur af því hvernig þetta er markaðssett og höfum til dæmis undanfarna mánuði haft fréttir af því að ungt fólk með krabbamein, sem hefur fengið krabbamein, að því hefur verið sérstaklega boðið upp á þessar rannsóknir og eins og þið sjáið fyrir ykkur þá er það viðkvæmur hópur,“ sagði Sigurdís.

Fullkomið dæmi um oflækningar

Fleiri læknar hafa gagnrýnt fyrirtækið, til dæmis á samfélagsmiðlum. Eyjólfur Þorkelsson, sérfræðingur í heimilislækningum og yfirlæknir HSA í Fjarðabyggð, sagði fólki að forðast þetta eins og heitan eldinn.

„Hvort þetta sé ólöglegt get ég ekki dæmt um, þó mér segi hugur um að svo sé, en siðlaust er þetta fyrir allan peninginn. Allar 300.000 krónurnar,“ segir hann.

Jón Magnús Jóhannesson læknir sagði í Facebook-hópnum Vísindi í íslenskum fjölmiðlum:

„Mjög mikilvægt er að benda á þann klára skaða sem fylgir svokallaðri „heilskimun”. Engin fagfélög sem einbeita sér að skimun og fyrirbyggingu sjúkdóma mæla með “heilskimun” með segulómskoðun (MRI), enda eru vísindin skýr um að slikt leiðir til mun meiri skaða en ávinnings. Þessi svokallaða “heilskimun” er raunar fullkomið dæmi um það sem kallað er oflækningar og hefur engin vísindaleg rök að baki.“

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins á dögunum var einnig rætt við Steinunni Erlu Thorlacius, geislafræðing sem starfaður áður sem deildarstjóri á röntgendeild Landspítalans. Hún segir að fólk fái góðar útskýringar á því hvað það á að gera við umræddar upplýsingar sem fást úr skimuninni. Benti hún á að fólk vilji í síauknum mæli taka ábyrgð á eigin heilsu og til þess þurfi gögn um eigin líkama.

„Fólk vill í síauknum mæli taka ábyrgð á eigin heilsu, og til þess þurfum við gögn um eigin líkama. Við göngum með úr og önnur tæki sem mæla svefngæði, hjartslátt og blóðþrýsting. Við notum snjallvigt sem mælir ekki bara þyngd heldur fituprósentu og vöðvamassa. Svo fylgjumst við með gögnunum yfir tíma, eftir því sem við gerum jákvæðar breytingar á lífsstílnum. Það fellur vel að þessu að geta farið í heilskimun hjá Intuens og fá þá í hendurnar niðurstöðu úr myndgreiningu innan úr líkamanum sem sýnir ástandið þar,“ sagði hún við Viðskiptablaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“