Hann segir að mögulega sé verið að ofmeðhöndla ADHD eða greina of marga. Hann segir við Morgunblaðið í dag að tímabært sé að staldra við og velta fyrir sér hvort við séum á réttri leið þegar kemur að því að meðhöndla og greina ADHD.
Bent er á það að mikill skortur hafi verið á ADHD-lyfinu Elvanse frá því í sumar og ekki sjái fyrir endann á þeim skorti. Rætt er við formann Lyfjafræðingafélags Íslands, Sigurbjörgu Sæunni Guðmundsdóttur, sem segir marga örvæntingarfulla vegna skortsins.
„Fólk er að koma í þvílíkri örvæntingu í apótekin og hringir viðstöðulaust. Ég veit um apótek sem tók símann tímabundið úr sambandi,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
Sjálf segist hún hafa fengið einn pakka í sitt apótek og hún hefði að líkindum getað selt hann 50 sinnum.
Hún setur spurningarmerki við að um sjö þúsund manns séu á þessu tiltekna ADHD-lyfi. „Það er verið að setja fólk beint á þetta lyf, sem stríðir algerlega gegn verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Þetta lyf er amfetamínafleiða, eins nálægt amfetamíni og ADHD-lyf verða. Þetta er eins og að bjóða fólki með höfuðverk morfín í æð án þess að prófa íbúfen fyrst. Það virkar vel en er klárlega ofmeðhöndlun,“ segir Sigurbjörg við Morgunblaðið.