„Við undirrituð, starfsfólk við Háskóla Íslands, lýsum yfir stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði,“ segir meðal annars en alla yfirlýsinguna má lesa hér.
Einar bendir á í grein sinni að í Bretlandi og Þýskalandi séu nú hafðar nánar gætur á þeim sem viðhafa hatursummæli um Ísraelsmenn. Þar líkt og hér sé hatursorðræða og mismunun refsiverð.
Einar segist hafa hringt til útlanda og sagt vini sínum frá yfirlýsingu starfsfólks HÍ til stuðnings Palestínu. Hann segir að í ljósi orðalags hennar verði hún ekki öðruvísi skilin en sem fullur stuðningur við hryðjuverk Hamas. Um viðbrögð vinar síns segir hann:
„Hann áttaði sig samt ekki alveg; „38 eru ekki svo margir“. Hann hváði, skiljanlega, endurtekið þegar ég sagði töluna 338.“
Í yfirlýsingunni kemur fram að sem akademískt starfsfólk muni þau sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk. „Aðför þessa starfsfólks HÍ að gyðingum á engan sinn líka í Íslandssögu síðari tíma að ég tel,“ segir hann og bendir á að viðlíka yfirlýsing hafi ekki komið fram áður. Segir hann að svo virðist sem starfsfólk HÍ muni vinna með öllum öðrum en gyðingum.
„Sem sé; starfsfólk HÍ mun framvegis vinna með Rússum sem hafa drepið og sært meira en hundrað þúsund manns í Úkraínu. Grimmileg örlög Mariupol og Bucha hafa verið metin og léttvæg fundin. Það mun líka eiga samskipti við Asera sem akkúrat þessa dagana reka meira en hundrað þúsund kristna Armena frá aldagömlum heimkynnum sínum. Sýrland, þar sem 500 þúsund liggja í valnum, er starfsfólkinu þóknanlegt. Þá mun fólkið óhikað eiga samskipti við Írana þar sem þúsundir hafa verið teknar af lífi undanfarin ár vegna mótmæla gegn ógnarstjórn öfgamúslima. Þar sem ungar konur eru barðar til bana fyrir rangan slæðuburð. Og líka talibana. Ekki einu sinni Norður-Kórea hefur sætt slíkum kárínum sem Ísrael. – Ræður þetta starfsfólk hver fær að eiga samvinnu við HÍ? Fæ ég að koma þar með mínar óæskilegu skoðanir til stuðnings Ísrael?“
Einar segist ekki vera mjög hissa á afstöðu margra sem skrifa undir. „Hver önnur en Sema Erla Serdaroglu skrifar fyrst undir hatursyfirlýsinguna! Þar er fleiri að finna. Dóttir alræmds austurþýsks kommúnista er þarna einnig sem og fleiri sem því ríki tengdust nánum böndum,“ segir Einar. Það hafi þó glatt hann að sjá engan úr lagadeild og aðeins tvo úr guðfræðideild.
„Í breska Verkamannaflokknum yrði hverjum þeim sem undirritaði yfirlýsinguna tafarlaust vikið úr áhrifastöðum eftir að gyðingahatur var þar gert útlægt, vonum seinna,“ segir hann.
Einar veltir fyrir sér hvort yfirlýsingin muni hafa einhverjar afleiðingar. Bendir hann á að siðareglur Háskóla Íslands kveði á um að komið sé fram við aðra af réttsýni og virðingu og þess gætt í störfum að einstaklingum sé ekki mismunað, t.d. vegna kyns, kynvitundar, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Þetta virðist þó ekki eiga við um gyðinga. Hann segir engan vafa leika á um að stjórnendur og siðanefnd HÍ muni grípa til viðeigandi ráðstafana.
Þá vísar hann í lög hér á landi sem kveða á um að hatursorðræða og mismunun sé refsiverð. Það sé til dæmis bannað að neita manni um vöru eða þjónustu til jafns á við aðra á grundvelli til dæmis þjóðernisuppruna eða trúarbragða. Að sama skapi geti hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni vegna þjóðernisuppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða fötlunar vænst þess að fá sekt eða allt að tveggja ára fangelsi.
„Ég efast ekki um það eitt andartak að ríkissaksóknari muni láta reyna á þetta borðleggjandi mál fyrir dómi. Það yrði fjölmennasti hópur sem ákærður hefði verið í einu máli á Íslandi. Enginn vafi er heldur á að fjölmiðlarnir munu spyrja ríkissaksóknara hvenær hún muni láta málið til sín taka. Eða hvað?“