Upplýsingafundur Almannavarna vegna ástandsins á Reykjanesskaga fór fram í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. Fundinum stýrði Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík og Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands voru einnig á fundinum.
Víðir hóf fundinn og sagði að ljóst væri umfang atburða í Grindavík væri þannig að nokkrir mánuðir muni líða þar til Grindvíkingar geti flutt aftur í bæinn. Miklar skemmdir hafi þegar orðið á vegum og mannvirkjum. Stutt sé til jóla og ljóst er að jól verði ekki haldin í Grindavík í ár.
Kristín tók við og sagði stöðuna í dag svipaða og hún hefur verið. Með hverjum degi dradi úr skjálftavirkni. Kvikugangurinn víkkar og dýpkar, en minnkandi virkni bendi til þess að kvikan sé komin ofarlega í jarðskorpuna. Það þurfi ekki mikil átök til að kvikan brjóti sér leið upp á yfirborðið. Segir hún hraun geta runnið í átt að Svartsengi og Grindavík eða í norður og austur. Það fari eftir því hvar hraunið komi upp.
Fannar bæjarstjóri sagði ástandið fordæmalaust að Vestmannaeyjagosinu frátöldu. Sagði hann allar bjargir hafa verið nýttar og alla sem vettlingi geta valdið komið til bjargar. Sagðist hann vita að ákall bæjarbúa væri að hlutirnir gengju hraðar fyrir sig. Húsnæðismál íbúa og fjárhagsáhyggjur þeirra væru í forgangi, en um 1200 heimili þurfi skjót úrræði til að koma sér í varanlegt húsnæði.
Hvatti hann íbúa til að nýta sér þjónustu og aðstöðu í Þjónustumiðstöðinni í Tollhúsinu í Reykjavík. Þar væri ýmis þjónusta í boði, en einnig væri mikilvægt að koma saman, hitta aðra íbúa og gráta og hlæja saman.
Katrín forsætisráðherra tók við. „Við munum taka vel utan um Grindvíkinga í góðu samstarfi við Grindvíkinga.“ Sagði hún um 600 beiðnir liggja fyrir um húsnæði, en um 130 hafa þegar fengið húsnæði. Sagði hún húsnæðismálin algjört forgangsmál. Stjórnvöld væru í samræðum við fjármálafyrirtæki um greiðslur íbúa af eignum þeirra í Grindavík. „Búið er að skipa húsnæðisteymi og samtal er í gangi við fjármálafyrirtækin. Ég vonast til þess að þau muni taka stærri skref til að mæta Grindvíkingum. Unnið er að því að útvega sérstakan húsnæðisstuðning.“
Sagði hún að fljótlega yrði opnað fyrir Spurt og svarað á island.is.
„Það eru allir í áfalli og mikilvægt að foreldrar fái að vinna úr því með sínum börnum,“ sagði Katrín sem sagði námskeið byrja í næstu viku fyrir foreldra. Fyrst þurfum við að hugsa um áþreifanlega hluti, fjárhagslega afkomu og skjól,“ sagði Katrín en minnti á að einnig þyrfti að huga að sálrænni hjálp.
„Búið er að skipa húsnæðisteymi og samtal er í gangi við fjármálafyrirtækin. Ég vonast til þess að þau muni taka stærri skref til að mæta Grindvíkingum. Unnið er að því að útvega sérstakan húsnæðisstuðning.“
Víðir sleit fundinum og sagði fundina verða reglulega hér eftir þar sem sérfræðingar verða til svars, næstu fundir verða mánudag, miðvikudag og föstudag í næstu viku. Lét hann orð Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar verða lokaorðin:
„Grindavík stendur enn og við ætlum heim aftur! Þó svo að mikið tjón sé í bænum er ljóst að mikill meirihluti húsa er alveg óskemmdur. Þá er rafmagn á langflestum húsum ásamt hitaveitu þrátt fyrir mikið landsig. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma bænum okkar í fyrra horf! Grindvíkingar gefast ekki upp.“