fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Leikskólakennari færður um deild vegna hálstaks á þriggja ára dreng – Haldið leyndu fyrir foreldrum í viku

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 18. nóvember 2023 08:00

Eydís og þriggja ára sonur hennar. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Starfsmaður á leikskólanum Árborg tilkynnti að leikskólakennari hefði tekið þriggja ára dreng hálstaki og beitt hann harðræði í samverutíma. Foreldrum var ekki tilkynnt um málið fyrr en viku seinna, eftir að fjórir fundir höfðu farið fram um málið innan leikskólakerfis Reykjavíkurborgar.

Ákveðið hefur verið að segja kennaranum ekki upp störfum heldur færa á aðra deild í leikskólanum. Foreldrarnir og foreldrafélagið eru afar ósátt með þessa niðurstöðu og móðir drengsins, Eydís Ögn Guðmundsdóttir, segist óttast að þurfa að skipta um leikskóla.

Öndunaróhljóð eftir hálstak

Atvikið átti sér stað miðvikudaginn 23. ágúst síðastliðinn í samverustund á leikskólanum Árborg í Árbænum í Reykjavík. Leikskólakennaranum, sem er kona, fannst drengurinn, sem er þriggja ára gamall og hefur glímt við ofvirkni og athygliserfiðleika, vera að trufla stundina með því að fikta í munninum á sér og gefa frá sér babl hljóð. Tók hún hann frá og setti á stól.

Starfsmaður sem var vitni að þessu fannst handtökin meðferðin sem kennarinn beitti vera harkaleg. Svo harkaleg að starfsmaðurinn ákvað að tilkynna atvikið til skólastjóra tveimur dögum síðar, þann 25. ágúst.

Í atvikalýsingu þess fundar segir að eftir að drengurinn hafi brugðist illa við skipun kennarans, farið að öskra og reynt að hlaupa burtu, hafi kennarinn gripið í peysuna hans. Drengurinn sé hins vegar kröftugur og hafi næstum náð að losa peysutakið. Þá hafi kennarinn tekið hann hálstaki.

„[Drengurinn] er enn þá að reyna að komast undan henni og mynduðust þá óhljóð frá honum, öndunaróhljóð,“ segir í lýsingunni.

Kennarinn hafi þá komist á fætur, sleppt hálstakinu en tekið utan um mittið á honum, lyft honum upp og gengið með hann að bogaborði á deildinni.

„Því næst setti [kennarinn] [drenginn] á stól með mjög harkalegum hætti. Á meðan öskrar drengurinn, grætur hátt og kallar eftir mömmu sinni. [Kennarinn] heldur svo áfram að byrsta sig við [drenginn] með mjög háum róm og segir honum að hætta að vera með læti,“ segir í lýsingunni.

Hafnaði ásökunum

Foreldrunum var ekki sagt frá atvikinu heldur var fyrst fundað um það í þrígang í viðbót. Það er dagana 28. og 29. ágúst í Austurmiðstöð Reykjavíkurborgar að Gylfaflöt og 30. ágúst í leikskólanum. Auk starfsfólks leikskólans voru viðstaddir fagstjóri leikskólamála í Austurmiðstöðinni og lögfræðingur.

Í lýsingu af atvikinu hafnaði kennarinn því að hafa tekið drenginn hálstaki. Sagði hún drenginn mjög sterkan, með erfiða hegðun og eigi það til að beita önnur börn og starfsfólk ofbeldi. Á þessari stundu hafi hann verið byrjaður að lemja aðra krakka svo ákveðið hafi verið að taka hann út úr aðstæðunum.

Atvikið átti sér stað á leikskólanum Árborg í Árbænum þann 23. ágúst síðastliðinn. Mynd/Reykjavíkurborg

Sagðist hún hafa tekið undir hendi drengsins með annarri hendi og undir höku þess milli þumals og vísifingurs. Með hinni hendinni undir maga drengsins til stuðnings til að hann myndi ekki skaða sig eða hana.

„Hún hafi reynt að taka um hökuna en ekki hálsinn, reyndi að finna kjálkabeinið svo hún myndi ekki meiða hann,“ segir í lýsingu hennar.  „Hún sé hjúkrunarfræðingur og viti hvernig eigi að taka á án þess að meiða.“

Hafnaði hún því að hafa öskrað á drenginn, að öndunaróhljóð hafi borist frá honum í takinu og að hafa sett hann harkalega í stólinn.

Biðu í viku

Það var ekki fyrr en fimmtudaginn 31. ágúst að foreldrum drengsins var tilkynnt um málið. En þau höfðu tekið eftir breyttri hegðun hans þessa viku sem leið.

„Við erum mjög ósátt að hafa fengið að vita þetta svona seint,“ segir Eydís. Engir líkamlegir áverkar höfðu sést á drengnum en hegðunin var breytt. „Hann vildi ekki fara í leikskólann, sem var mjög ólíkt honum. Hann grét og vildi ekki fara á deildina sem hann var kominn á. Við skildum ekkert í því hvað var í gangi.“

Eydís og Jóakim Jóhannsson, faðir drengsins, hafa kvartað yfir málsmeðferðinni. Segir hún að lögfræðingur borgarinnar hafi viðurkennt það við hana að það hafi verið mistök að láta foreldrana ekki vita fyrr.

Færð um deild

Strax og málið kom upp ákvað leikskólastjórinn að senda kennarann í launað leyfi. Fyrst í stuttan tíma, eina eða tvær vikur, en síðan fram til 14. nóvember.

Ákveðið hefur verið að segja kennaranum ekki upp störfum heldur flytja hana um deild. Foreldrar drengsins eru ekki sátt við þessi málalok og heldur ekki foreldrafélag leikskólans. Var undirskriftalisti foreldra sendur á skrifstofustjóra skóla-og frístundasviðs. Ekki hafa borist viðbrögð við honum.

Foreldrafélagið sendi skóla-og frístundasviði borgarinnar undirskriftarlista vegna málsins.

„Ég vil ekki að þessi kennari sé á sama leikskóla og sonur minn. Þá mun ég enda á að þurfa að skipta um leikskóla fyrir hann,“ segir Eydís. „Einnig finnst mér borgin bregðast barninu mínu gjörsamlega og finnst sárt að lítið barn sem er varnarlaust fái ekki að njóta vafans. Leikskóli á að vera staður sem við getum treyst fyrir því sem er mikilvægast í okkar lifi. Ekki þar sem ofbeldi fær að líðast.“

Bera fyrir sig trúnað

Sigríður Valdimarsdóttir, skólastjóri leikskólans Árborgar, bar fyrir sig trúnaði og sagðist ekki geta tjáð sig um málið þegar DV hafði samband. Benti hún á að það væri Reykjavíkurborgar að svara fyrir málið.

DV spurði Hildi L. Jónsdóttur, fagstjóra leikskóla í Austurmiðstöð, hvers vegna liðið hafi svo langur tími þar til foreldrum var tilkynnt um málið, hvers vegna leikskólakennaranum hafi ekki verið sagt upp og hvers vegna hann var færður um deild en sagðist hún ekki mega svara því og vísaði til upplýsingalaga.

„Þó get ég upplýst þig um að mál sem varða óviðeigandi framkomu starfsmanns gagnvart barni skulu könnuð af stjórnanda starfsstaðar á grundvelli samnefnds verkferils skóla- og frístundasviðs. Þá eru mál tilkynnt til lögreglu og/eða Barnaverndar Reykjavíkur í þeim tilvikum sem tilefni er til og ráðgjöf sömuleiðis fengin frá þeim aðilum. Jafnframt er upplýst um að farið er að ákvæðum viðhlítandi laga og kjarasamninga við meðferð mála af þessu tagi auk þess sem litið er til almennra reglna stjórnsýsluréttar, m.a. um rannsókn máls, andmælarétt og meðalhóf,“ segir Hildur. „Auk framangreinds er það skýr stefna á skóla- og frístundasviði sem og hjá Reykjavíkurborg í heild að ofbeldi í garð barna er ekki liðið.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“