Ása Guðbjörg Ellerup og börn hennar tvö, Victoria og Christopher, eru sögð munu fá að minnsta kosti 1 milljón dollara, 140 milljónir króna, fyrir heimildarmynd sem er í vinnslu um eiginmann Ásu, hinn meinta raðmorðingja Rex Heuermann og myrkraverk hans. NewsNation greinir frá en heimildarmyndin er unnin af NBC/Peacock og hefur tökulið sést fylgja Ásu Guðbjörgu eftir síðustu daga. Þar á meðal þegar hún sótti þingfestingu morðmála gegn eiginmanninum í síðustu viku en þar neitaði Rex að hafa myrt Amber Lynn Costello, 27 ára, Melissa Barthelemy, 24 ára og Megan Waterman, 22 ára. Rex er einnig efstur á lista grunaðra varðandi morðið á hinni 25 ára gömlu Maureen Brainard-Barnes en ákæra í málinu hefur ekki enn verið gefin út.
„Það er ástæða fyrir því að hún talar ekki við fjölmiðla því hún er búin að skrifa undir risasamning við teymið á bak við heimildarmyndina,“ er haft eftir blaðamanni NewsNation, Paula Froelich. Þá er því haldið fram að lögmenn fjölskyldunnar muni einnig fá væna summu fyrir þátttöku sína í verkefninu.
Eins og greint hefur verið frá fór Ása Guðbjörg fram á skilnað frá Rex eiginmanni sínum sex dögum eftir að hann var handtekinn vegna gruns um að hann væri hinn alræmdi Gilgostrandar-raðmorðingi. Sá gjörningur gerir það að verkum að Ásu er heimilt að selja sögu sína en raðmorðingjunum sjálfum er óheimilt að hagnast á myrkraverkum sínum samkvæmt bandarískum lögum.
Lögmaður tveggja meintra fórnarlamba Rex, John Ray, hefur gagnrýnt Ásu harðlega í bandarískum fjölmiðlum og sagt hana enn standa með Rex og að um sýndargjörninga sé að ræða. Hefur meðal annars verið bent á að Rex afsalaði fasteign fjölskyldunnar , sem metin er á 78 milljónir króna, til Ásu á 0 krónur.
Þá heimsótti Ása eiginmann sinn í fangelsið í fyrsta sinn á dögunum.
Lögmaðurinn hefur meðal annars haldið blaðamannafund þar sem hann greindi frá framburði tveggja vitna sem hafi gefið sig fram við hann. Um væri að ræða tvær konur sem gætu tengt hann við látnu konurnar, Shannan Gilbert og Valerie Mack. Annað vitnið héldi því jafnframt fram að Ása væri ekki eins saklaus í málinu og talið sé. Hún hafi verið meðvituð um myrkraverk eiginmanns síns og leyft því að viðgangast.
Lögmaður Ásu, Robert Macedonio, hefur hins vegar varið Ásu af krafti og sagt að John Ray sé rekinn áfram af annarlegum hvötum. Segir hann Ásu vera að reyna að koma lífi sínu á aftur á réttan kjöl eftir áfallið og þá muni hún vera viðstödd réttarhöldin til að geta sjálf lagt mat á mál ákæruvaldsins gegn Rex hennar. Þá glími hún við krabbamein sem sé gríðarlega kostnaðarsamt í ljósi þess að hún er ekki sjúkratryggð.