Vilhjálmur var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun þar sem hann fór yfir fréttir vikunnar ásamt kollega sínum, þingkonunni Ásthildi Lóu Þórsdóttur úr Flokki fólksins. Eðli málsins samkvæmt voru málefni Grindavíkur í brennidepli í þættinum.
Hann var spurður hvernig þessi vika sem liðin er frá rýmingu hefur verið.
„Hann hefur verið allskonar og mjög skrýtinn. Maður er búinn að vera í tómarúmi allan þennan tíma og eitt stórt spurningarmerki. Maður er náttúrulega bara í losti. Maður finnur varla tilfinningar, er hvorki þreyttur, svangur, saddur eða neitt. Þannig að maður er búinn að vera á ýmsum stöðum og átta sig á stöðunni og fara á milli staða. Dagskráin hjá manni breytist bara klukkutíma fyrir klukkutíma,“ sagði Vilhjálmur en fjallað er um þáttinn á vef RÚV.
Hann sagði að eina stundina væri hann að hugsa um hvar hann ætli að búa og þá næstu hvort og hvenær hann fái að fara heim að sækja dótið sitt.
„Hvernig verður með skólamál og íþróttamál og félagslíf strákanna þinna. Eins og að hitta vini sína og allt þetta. Svo núna, hvernig ætlar maður að búa í vetur? Hvar ætlar maður að vera og allt þetta? Maður er svona með hugann hingað og þangað og það sem hefur kannski breyst mest er að maður er hættur að fylgjast með jarðskjálftum og hvort það gjósi, maður er farinn að pæla í allt öðru,“ sagði hann.
Vilhjálmur og Ásthildur voru bæði gagnrýnin á bankana í umræðum í þættinum, en eins og komið hefur fram býðst Grindvíkingum að frysta lán sín. Sá böggull fylgir skammrifi að vextir og verðbætur leggjast ofan á höfuðstól lánsins.
Sagði Vilhjálmur að bankarnir gætu gert miklu betur og væru í raun að pissa í skóinn sinn. Það væri hagur bankanna að Grindvíkingar kæmu öflugir til baka. Með því yrðu veð bankanna í húsum þeirra verðmætari.
„Það er ekki eins og við séum bara að missa heimilin heldur er kostnaðurinn að margfaldast og tekjurnar sem við náum að tryggja í dag eru í hættu hjá mörgum,“ sagði hann en tók fram að von væri á frumvarpi sem tæki utan um þessi atriði. Sumir þyrftu að komast á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem er ekkert grín.
„Það er ekki nóg að verja bara tekjurnar því kostnaðurinn margfaldast svo að þá höfum við ekkert bolmagn til þess að koma heim og verja veðið, gera húsin okkar upp og endurreisa bæinn þannig að bankarnir eru ekki að hugsa þetta til enda,“ sagði Vilhjálmur.