Hjörtur skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann skrifar um íslensku þjóðkirkjuna.
„Sjaldan ef nokkurn tíma hafa biskupsembætti þjóðkirkjunnar notið eins lítillar virðingar eða eins takmarkaðs trúverðugleika og undanfarna mánuði, reyndar í mörg ár. Forsíðufréttir, aftur og aftur, klúður á klúður ofan í biskupabröltinu. Hvað gera biskupar þá? Jú, þeir virðast nú ætla í víking, taka sér meiri völd,“ segir hann og vísar í tillögu tveggja biskupa þjóðkirkjunnar til kirkjuþings, Agnesar Sigurðardóttur biskups og Kristjáns Björnssonar vígslubiskups, um eigin völd og áhrif sem Hjörtur segir að eigi að ná langt út fyrir mörk stofnunarinnar.
Hjörtur segir að mál þetta sé að finna á yfirstandandi þingi sem mál 24 en í henni segir:
„Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og hjá fríkirkjusöfnuðum er starfa á sama kenningargrunni.“
Hjörtur er þungt hugsi yfir þessu og segir:
„Sem sagt, að biskup þjóðkirkjunnar hafi „yfirumsjón með kirkjuaga“ og hafi tilsjón hjá og með sjálfstæðum lúterskum fríkirkjum. Enn fremur segir að „tilsjón biskups tekur þá til allra þátta kirkjulegrar starfsemi og starfsfólks“. Hvorki meira né minna. Þetta hljómar sem yfirtaka.“
Hjörtur Magni bendir á að Fríkirkjan í Reykjavík sé algjörlega sjálfstæð og óháð þjóðkirkjunni og biskupum hennar. Hún vilji ekki vera sett undir neitt biskupsvald.
„Vá, gott fólk, hvað merkir þessi farsi? Hvaðan á þetta sjálftekna vald að koma? Er það frá páfanum í Róm? Erum við hér að fara að sjá tvo kardínála, annan í Skálholti og hinn á Hólum og svo íslenska útgáfu af alráðum páfa hér í Reykjavík?“
Hjörtur Magni spyr hvort biskupar ætli að taka sér aga- og tilsjónarvald yfir fleiri lögaðilum sem eru stofnuninni alveg ótengdir.
„T.d. yfir íslenskum fjölmiðlum svo að þeir flytji engar neikvæðar fréttir af þjóðkirkjunni? Ætla biskupar að taka sér aga- og tilsjónarvald yfir Siðmennt, Ásatrúarfélaginu, yfir kirkjuþingi og jafnvel Alþingi svo að engar rangar ákvarðanir verði þar teknar varðandi stofnunina?“
Hann segir að mikið hafi fjölgað í frjálsum lúterskum fríkirkjum mörg undanfarin ár og á sama tíma hafi mjög fækkað í þjóðkirkjunni. Hugsanlega sé þessi fáránleiki einhvers konar „fálmkennd varnarviðbrögð við því“ eins og hann orðar það.
„Reyndar hefur mest fjölgað hér á landi þeim sem engu trúfélagi vilja tilheyra og þar er fælandi framgöngu þjóðkirkjustofnunarinnar helst um að kenna. Ef valdatillaga biskupanna nær fram ganga er hér um að ræða brot á landslögum um trúfrelsi.“
Hjörtur Magni segir að samskipti þjóðkirkjustofnunarinnar og Fríkirkjunnar í Reykjavík hafi verið svo gott sem engin undanfarna áratugi.
„Þjóðkirkjustofnunin með öll sín forréttindi og milljarða hefur látið sem fríkirkjan sé ekki til þótt hún sé varin af stjórnarskrá Íslands. Undantekning eru umræður á kirkjuþingi árið 2001. Þá vaknaði sú hugmynd innan kirkjuþings að bjóða fríkirkjum að ganga inn í þjóðkirkjuna, það átti að vera freistandi boð og vottur um kristinn kærleika. Það var alls ekki að beiðni fríkirknanna, alls ekki frá okkur komið. Þegar upptökur af umræðum kirkjuþings láku óvart út kom tilgangurinn í ljós.“
Hjörtur segir að tilgangurinn hafi verið að fríkirkjur misstu sérstöðu sína og aðdráttarafl.
„Fríkirkjufólki eða fríkirkjufyrirkomulaginu var líkt við asna, asna sem stæði utan borgarmúranna þ.e. utan þjóðkirkjunnar en var klyfjaður miklu gulli, þ.e.a.s. trúfélagagjöld vaxandi fríkirkna sem þjóðkirkjan girntist. Tilgangurinn var að lokka asnann inn fyrir borgarmúrinn, ná gullinu af baki hans en senda asnann, þ.e. fríkirkjuhugsjónina, síðan aftur út fyrir borgarmúrinn, þar sem hann ætti helst heima, þ.e. hvergi. Engir af æðstu mönnum þjóðkirkjustofnunarinnar, svo sem biskupar eða guðfræðiprófessorar sem tóku þátt í umræðunum, fundu neitt að þessum líkingum.“
Hann segir að með lævísum hætti hafi tilgangurinn verið sá að fríkirkjur misstu sérstöðu sína, aðdráttarafl og fjármuni. Á kirkjuþingi hafi verið talað um fríkirkjur af slíkri fyrirlitningu og hroka að veruleg skömm er að fyrir þjóðkirkjustofnunina.
„Nú þegar þjóð okkar og einkum samfélagið okkar á Reykjanesi hér á suðvesturhorninu stendur frammi fyrir hryllilegri ógn náttúruaflanna, þá væri æskilegt að þau sem telja sig, einkum sjálf, í forsvari á sviði kirkjumála fari að haga sér kristilega, hugsi um eitthvað annað en eigin völd og ásókn í annarra fjármuni. Hverjir þurfa aga og tilsjón?“