Auglýsingar frá Blanka fyrr í vikunni vöktu mikla athygli og veltu margir fyrir sér hver eða hverjir væru á bak við umrætt fyrirtæki. Nú er komið í ljós að það eru ÖBÍ réttindasamtök (Öryrkjabandalagið) sem eru á bak við umrædda auglýsingaherferð.
Tilgangur verkefnisins er skrumskæla hönnunarstíl og myndmál bankanna til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á vondum kjörum fatlaðs fólks, skorti á húsnæðisöryggi og skertu aðgengi þess að heilbrigðisþjónustu, eins og segir í fréttatilkynningu frá ÖBÍ.
Fimm kanónur í viðskiptalífinu samþykktu að skrá sig sem stjórnarmenn í Blanka til að sýna málstaðnum stuðning: Reynir Grétarsson er skráður stjórnarformaður Blanka. Hann er stofnandi Creditinfo og fyrrverandi forstjóri SaltPay. Reynir er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann gegndi áður stöðu forstjóra Creditinfo til ársins 2017. Aðalsteinn Leifsson er fyrrverandi ríkissáttasemjari og vann áður lengi hjá Háskólanum í Reykjavík. Í dag á hann og rekur ráðgjafarfyrirtækið Gusta consulting. Ragnheiður H Magnúsdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Maggar. Hún hefur áður setið í stjórn meðal annars VÍS og Faxaflóahafna og komið víða við í íslenska tæknigeiranum. Hjálmar Gíslason er stofnandi og framkvæmdastjóri GRID og stofnaði áður Datamarket. Hann var útnefndur viðskiptamaður ársins árið 2014. Hrund Gunnsteinsdóttir er fyrirlesari, fjárfestir og rithöfundur sem hefur setið í stjórn Eyris Invest, unnið á vegum WEF og er fv. framkvæmdastjóri Festu.
Blanki er ekki til eins og fram hefur komið…..en vaxandi hópur fatlaðs fólks á Íslandi þarf að takast á við blankheit. Þetta sýna fjölmargar kannanir og rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og er fullkomlega augljóst ef maður bara hlustar á raddir örorkulífeyristaka.
Til þess að vekja athygli á þessum veruleika hefur ÖBÍ staðið fyrir kynningarverkefninu Blanka. Þetta er auðvitað ekki raunverulegt fyrirtæki, enda myndu kannski fæstir vilja vera í viðskiptum við banka sem kallar sig þessu nafni. Tölurnar sem birtust í kynningarefni Blanka eru hins vegar raunverulegar, eins og kemur fram í tilkynningu:
Þegar lífeyririnn er svo lágur að fólk á ekkert eftir þegar það er búið að greiða leigu eða borga af húsnæðisláni, þegar matarkarfan hefur hækkað í verði um 12,4%, þegar fólk þarf að neita sér um læknisaðstoð og þegar bilið á milli launa og lífeyris gerir ekkert nema breikka er lífsnauðsynlegt hækka lífeyri og það rækilega.
ÖBÍ réttindasamtök samanstanda af fjörutíu aðildarfélögum ólíkra fötlunarhópa. Samtals eru félagar um 40.200. Raunverulegar úrbætur í málefnum fatlaðs fólks skipta samfélagið allt því verulegu máli.
ÖBÍ réttindasamtök krefjast þess að stjórnvöld hækki örorkulífeyri um 12,4% án tafar.