Tómas Waagfjörð lét lífið vegna stungu með hnífi sem hann tók sjálfur með sér að heiman inn í íbúð á Ólafsvegi á Ólafsfirði, ef marka má greinargerð verjanda hins ákærða í málinu.
Steinþór Einarsson er ákærður fyrir manndráp vegna dauða Tómasar Waagfjörð sem lést aðfaranótt 3. október 2022. Í ákæru segir að Steinþór hafi stungið Tómas „tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi, með þeim afleiðingum að ytri mjaðmarslagæð fór í sundur og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða Tómasar.“
Steinþór neitar sök og segist hafa beitt neyðarvörn í átökunum. Hann hafi ekki lagt til Tómasar með hnífi heldur hafi verið að verjast árás hins látna. Ákæru um manndráp er hafnað, sem og bótakröfum í málinu.
Í greinargerð Snorra Sturlusonar, lögmanns Steinþórs, er því hafnað að Steinþór hafi stungið Tómas með hnífnum og því haldið fram að Tómas hafi orðið fyrir stungunum er Steinþór var að verjast atlögu hans. Óhugnanlegar lýsingar eru á átökum mannanna nóttina örlagaríku en í greinargerðinni segir að Tómas hafi komið með hníf á vettvang með 20 cm blaði. Í íbúðinni voru fyrir auk Steinþórs eiginkona Tómasar og önnur kona. Eiginkonan neitaði að fara burtu með Tómasi og í kjölfar þess að Steinþór sagði honum að fara brutust út átök milli mannanna. Í greinargerðinni segir:
„Ákærði henti í áttina til hins látna Tómasar Waagfjörð sólgleraugum sem hann hafði á höfðinu, sem greinilega varð til þess til að hinn látni Tómas Waagfjörð gekk í átt til ákærða mjög hratt, dró upp hníf sem ákærði hafði ekki tekið eftir. Ákærði hafði ekki staðið upp þegar hinn látni stakk hann í andlitið. Ákærði hrinti hinum látna út í horn eldhússins. Þá stakk hinn látni ákærða í lærið, og öskraði [ákærði] hvort hinn látni Tómas Waagfjörð hafi verið að stinga hann og ýtti aftur hendi hans frá sér til hins látna og féll um leið á hann. Því næst náði ákærði að snúa baki við hinum látna, krækja hægri hendi hans undir hægri handakrika og grípa utan um hnífsblaðið með hægri hendi þangað til hinn látni missti mátt og féll niður, en þá um leið féll ákærði fram fyrir sig, lagði hnífinn frá sér [í] nærliggjandi blómapott og skreið inn á baðherbergi. Sjá má merki um þetta í gögnum málsins.“
Snorri segir að Tómas hafi stungið Steinþór í andlitið, lýsingarnar eru hroðalegar:
„Ljóst er að hinn látni Tómas Waagfjörð réðst á ákærða vopnaður hnífi. Í átökunum hlaut ákærði stunguáverka í andlit en hinn látni stakk í gegnum kinn ákærða, og við þá stungu hafi endajaxl ákærða klofnað. Þá hlaut ákærði einnig stunguáverka á læri og varnaráverka á höndum. Hinn látni var með tvo áverka á vinstri síðu. Annar áverkinn lá í […]. Hinn áverkinn, sá á vinstri síðu, lá í […]. Hin látni var einnig með sár á vinstri þumalfingri og í vinstra lófa.“
Þá segir ennfremur að Steinþór hafi aldrei náð taki á hnífnum sem Tómas hlaut bana af:
„Þá ber einnig að hafa í huga að samkvæmt málavaxtalýsingu og gögnum málsins má það ljóst vera að í átökunum náði ákærði aldrei taki á skefti hnífsins þannig að má það ljóst vera að hinn ákærði gat með engu móti stungið hinn látna Tómas Waagfjörð beint með hnífnum. Þaðan að síður stungið með því afli sem þarf til eins og réttarmeinafræðingur vill meina samkvæmt sinni skýrslu.
Samkvæmt gögnum málsins má sjá að hinn látni lagði oftar til ákærða með hnífnum en áverkar hans gefa til kynna, því samkvæmt þeim mátti sjá merki um stungu í baki stóls sem hin ákærði sat í og einnig mátti sjá stungu í gardínum sem voru á bak við árásarstaðinn.“
Snorri segir einnig að sú staðreynd að Steinþór sé örvhentur en Tómas hafi verið rétthentur styðji þá staðhæfingu að um sjálfsvörn hafi verið að ræða:
„Áverkarnir samræmist því að hann hafi ýtt hendi hins látna frá sér með vinstri hendi, sér til varnar, eftir að hafa hlotið stungu í lærið og þá hafi hægri hönd hins látna snúist með hnífinn í átt að vinstri síðu hins látna og hann hlotið stungu við það. Þá samrýmist skurður á hægri hendi ákærða frásögn hans um að hafa tekið um hnífsblaðið þar sem hinn látni hélt á hnífnum og ríghaldið um blaðið þar til hinn látni Tómas Waagfjörð hafi á endanum misst takið á hnífnum.“
Snorri segir mennina hafa staðið ójafnt að vígi í átökunum þar sem Tómas hafi verið vopnaður hnífi með 20 cm löngu blaði og Steinþór hafi aldrei náð tökum á skepti hnífsins í átökunum. Steinþór hafi ekki verið vopnaður heldur hafi varist með höndunum einum. Við túlkun á neyðarvörn skipti miklu máli að mennirnir hafi ekki staðið jafnt að vígi.
Einnig er bent á að ekkert liggur fyrir um ásetning Steinþórs til manndráps. Varnir hans í átökunum hafi enn fremur ekki verið ofsafengnar og ekki beinst að viðkvæmum líkamshlutum Tómasar. Þá segir:
„Þá verða heldur ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning ákærða til manndráps af háttalagi hans rétt fyrir hina ólögmætu árás af hálfu hins látna Tómasar Waagfjörð eða í framhaldi af henni. Þegar allt framangreint er metið heildstætt er ógerlegt að telja fram komna fulla sönnun þess að ákærði hafi á verknaðarstundu haft ásetning til að bana hinum látna Tómasi Waagfjörð, heldur verður að miða við að ákærði hafi orðið fyrir algjörlega tilefnislausri og harkalegri líkamsárás frá hinum látna Tómasi Waagfjörð sem heimfærð verður undir 211 gr. sbr. 20 gr almennra hegningarlaga . Ákærða var nauðsynlegt að verja sig fyrir árás hins látna Tómasar Waagfjörð og af því sem á undan var gengið hafði ákærði tilefni til að ætla að hann væri í bráðri hættu. Eru því öll lagaskilyrði fyrir því að fallast á með ákærða að skilyrði neyðarvarnar hafi verið fyrir hendi þannig að hann skuli sýknaður af ákæru fyrir mandráp samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Aðalmeðferð í málinu verður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra dagana 11. og 12. desember.