Steinar rekur ferðaþjónustu í Fossatúni og hefur uppbyggingin tekist vel. Benti hann á í grein sinni að heildarfjöldi gesta í Fossatúni þetta ár væri yfir 30 þúsund. Rifjaði hann einnig upp að Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, hafi boðið honum í bíltúr á árunum upp úr aldamótum til að skoða jarðir á Suðurlandi.
„Góður dagur og ánægjuleg samvera en ekki varð úr að ég tæki skref í að festa mér lögbýli,“ sagði Steinar sem hóf svo rekstur á Fossatúni árið 2005.
Hann sagði svo enn fremur:
„Ég varð undrandi að sjá Guðna Ágústsson fara fram í fjölmiðlum fyrir nokkru með upphrópun um að ferðaþjónustan væri að drepa landbúnað á Íslandi. Staldraði við og ákvað að taka það til mín. Hann hafði jú hvatt mig til þess að fara út í ferðaþjónustu á Suðurlandi en kallaði mig núna skemmdarvarg. Ég þurfti ekki mikla umhugsun til að sjá að hann var að ala á gremju og tortryggni. Í okkar rekstri finnum við sannarlega fyrir því að vaxtakostnaður rúmlega tvöfaldast milli ára. Við höfum mætt því með hagræðingu og mikilli vinnu. Ferðaþjónustan er að upplifa spennandi tíma og framlagið til þjóðarbúsins er verulegt. Ríkisstyrktur landbúnaður er hins vegar í framsóknarálögum og á enga möguleika aðra til að bregðast við breyttum forsendum en seilast dýpra í vasa skattgreiðenda. Engar úrbætur felast í árás á ferðaþjónustuna.“
Bætti Steinar við að „fávís þröngsýni framsóknarráðherranna“ væri innan meinið sem hrjáir landbúnaðinn.
Guðni skrifar svargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hann svarar Steinari fullum hálsi og segir hann kasta steinum úr glerhúsi.
„Steinar Berg skrifar grein þar sem hann lýsir velgjörðarmönnum sínum, undirrituðum í hálfan dag og Árna Magnússyni síðar ráðherra, með fögrum orðum. Svo hefur hann ekki lært það sem Snorri Sturluson nágranni hans sagði: „Eigi skal höggva.“
Segir Guðni að Steinar Berg sé sama eðlis og Ólafur gamli á Hrísbrú sem hafi kallað prestana á Mosfelli þessa „andskota“.“
„Framsóknarmenn virðast vera andskotar í sálarlífi Steinars og þá má grýta. Því fyrr hef ég séð í skrifum þessa dagsvinar míns illum orðum kastað að framsóknarmönnum og nú að mér, sem átti skemmtilegan dag með honum fyrir 25 árum hér í Árnesþingi.“
Guðni beinir svo orðum sínum beint að Steinari:
„Steinar Berg! Þegar ég kvaddi landbúnaðarráðuneytið skiptu ferðaþjónustu- og skógarbændur hundruðum. Báðum þessum nýju greinum á aldintré sveitanna var ég sem besti þjónn og hef átt góð samskipti við þessa aðila síðan. Sveitirnar risu til nýrrar sóknar upp úr síðustu aldamótum og ég var sá gæfumaður að fara fyrir oddafluginu í ríkisstjórn. Mundu að lokum Steinar Berg hin mögnuðu orð frelsarans: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Ég hringdi í Steinar Berg þá ég hafði lesið greinina illskeyttu, og bað hann að spara grjótið í Fossatúni.“