Vísindamenn telja að kvika flæði inn í kvikuganginn norðaustur af Grindavík á fleiri en einum stað. Engin merki eru um gosóróa og virðist staðan vera svipuð og áður.
Benedikt sagði að líklega sæjust merki um að brennisteinsdíoxíð væri að koma upp úr kvikuganginum á milli Hagafells og Grindavíkur þar sem sterkasti púlsinn kemur upp. Það þýðir að kvikan getur ekki verið á meira en 500 metra dýpi og jafnvel grynnra.
„Það þýðir ekki að það sé mikið magn. Það þýðir bara að hluti af kvikunni hefur komist 500 metra eða grynnra.“
Benedikt var spurður hvort enn væru miklar líkur á eldgosi.
„Já, ég held við verðum að halda okkur við það. Við sjáum enn merki um að kvika sé að flæða inn og meðan svo er þá teljum við miklar líkur á eldgosi. Meðan það hægir ekki á þessu verulega þá gerum við það.“