Veðurstofan var að senda frá sér nýja tilkynningu um stöðu mála í yfirstandandi jarðhræringum við Grindavík. Þar kemur fram að enn flæði kvika inn í kvikuganginn sem þar hefur myndast og að uppstreymissvæði kvikunnar sé talið vera við Sundhnúk, norður af Grindavík.
Í tilkynningunni segir að frá miðnætti hafi mælst um 800 smáskjálftar, langflestir um miðbik kvikugangsins við Sundhnúk á um 3-5 kílómetra dýpi. Skjálftavirknin hafi haldist stöðug frá 11. nóvember. Megin áhersla á vöktun skjálftavirkni sé áfram á svæði gangsins og Grindavíkur.
Aflögunarmælingar sýni áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær séu í samræmi við að kvika flæði enn inn í ganginn. Hluti kvikugangs virðist vera að storkna, einkum til jaðra en ekki við uppstreymissvæði kviku sem talið sé vera við Sundhnúk.
Mælingar á brennisteinsdíóxíð (SO2) virðist sýna hviðukennda afgösun vegna kvikugangsins, en frekari mælinga sé þörf því til staðfestingar. Greining þessara gagna sé nú í gangi í samstarfi við Chalmers háskólann í Svíþjóð.
Ljósleiðari HS Orku sem liggur frá Svartsengi vestur fyrir Þorbjörn og þaðan til Arfadalsvíkur sé nú nýttur sem samfelld jarðskjálftamælilína með mikilli næmni. Þetta sé ný tækni sem hafi þróast á síðustu árum og sé nú nýtt sem viðbótarmælingar í samstarfi við HS Orku og ETH í Sviss.
Á heildina litið virðist staðan vera óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi séu enn taldar miklar. Komi til goss sé líklegust staðsetning við kvikuganginn.