fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Krafðist 35 milljóna króna en fékk ekkert

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 15. nóvember 2023 12:00

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur kvað síðastliðinn föstudag upp dóm í máli sem kona höfðaði gegn íslenska ríkinu eftir að starf hennar á Landspítalanum var lagt niður. Krafðist konan þess að ríkið yrði dæmt til að greiða henni tæpar 35 milljónir króna auk vaxta. Landsréttur komst að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur og sýknaði ríkið af kröfum konunnar og fær hún því ekkert.

Í dómi Landsréttar segir að konan hafi starfað sem rekstrarstjóri uppþvottar hjá Landspítalanum frá 2013 þar til henni var sagt upp haustið 2020. Samkvæmt starfslýsingu stýrði konan meðal annars daglegri starfsemi í uppþvotti, einstaklingsskömmtun máltíða og kortaskrifstofu í samræmi við stefnu, gildi og starfsáætlun eldhúss og matsala.

Nýr deildarstjóri var ráðinn í eldhús Landspítalans 2018. Var deildarstjóranum ætlað að undirbúa eldhúsið fyrir nýjan Landspítala. Fljótlega eftir það var gerð krafa um hagræðingu í eldhúsinu og hluti af því var að fækka stjórnendum en í dómnum segir að stjórnendur í eldhúsinu hafi verið fleiri en á mörgum sjúrkrahúsum á Norðurlöndunum.

Einnig kemur fram í dómnum að eftir heimsóknir deildarstjóra á nokkur sjúkrahús í Danmörku og Svíþjóð árið 2019 og í byrjun árs 2020 hafi þótt nauðsynlegt að efla fagþekkingu í eldhúsi Landspítalans og um leið fækka stjórnendum. Deildarstjórinn lagði slíkt til en hætti störfum áður en þessar breytingar komu til framkvæmda.

Í dómnum segir að framkvæmdastjórn Landspítalans hafi haustið 2020 ákveðið að fengnum tillögum forstöðumanns aðfanga og umhverfis að breyta um framleiðsluaðferð í eldhúsi spítalans. Ákveðið var að sameina matargerð og uppþvott í eina einingu. Stöður rekstrarstjóra beggja eininga voru lagðar niður og í stað þeirra átti að ráða einn rekstrarstjóra framleiðslu. Fleiri stjórnunarstöður voru lagðar niður.

Samhliða voru gerðar auknar kröfur um fagmenntun stjórnenda og að rekstrarstjórar yrðu háskólamenntaðir og var það sagt vera ekki síst til að auka fagmennsku.

Fram kemur í dómnum að núverandi deildarstjóri eldhúss og matsala hafi sagt fyrir héraðsdómi að stjórnendur hafi gert kröfu um hagræðingu þar sem veitingaþjónustan hafi verið í 70 til 80 milljóna króna árlegum halla árin á undan sem draga hefði þurft úr. Uppreiknaður sparnaður sem hlotist hefði af hagræðingaraðgerðunum og skipulagsbreytingunum væri um 50 milljónir króna.

Þegar konunni var sagt upp með formlegum hætti var henni tjáð að uppsögnin byggði á skipulagsbreytingum og rekstrarlegum forsendum.

Fékk aðra vinnu á spítalanum

Í dómnum kemur fram að konan hafi ekki sótt um þær nýju stjórnunarstöður sem komið var á í eldhúsi Landspítalans. Sagðist hún ekki hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru. Sagðist konan hafa þegið boð stjórnenda um hjálp við að finna nýtt starf innan spítalans en ekki fengið slíka aðstoð þegar á reyndi. Sagði konan að hún hafi sótt um fjölda starfa og loks verið ráðin í annað auglýst starf á spítalanum nokkru síðar.

Fyrir dómi fullyrti lögmaður konunnar að uppsögn hennar hafi ekki verið í samræmi við þær hagræðingartillögur sem lágu fyrir og samhliða hafi verið ráðist í ráðningar í eldhúsi Landspítalans. Einnig sagði hann spítalann ekki hafa farið eftir stjórnsýslulögum sem kvæðu á um að leggja hefði mat á hvort vægara úrræði en uppsögn væri fyrir hendi. Lögmaðurinn sagði einnig að óheimilt hefði verið að segja konunni upp til að ráða annan hæfari starfsmann í staðinn.

Íslenska ríkið hélt því fram fyrir Landsrétti að sú málsástæða konunnar að uppsögn hennar hefði ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi hagræðingartillögu hefði komið of seint fram. Uppsögn konunnar hafi hvorki lotið að persónu hennar né störfum og því hafi skilyrði laga verið uppfyllt. Ennfremur hafi uppsögnin verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Í niðurstöðu dómsins segir að konan hafi fyrst fyrir Landsrétti haldið fram þeirri málsástæðu að uppsögn hennar hafi ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi hagræðingartillögur. Allar upplýsingar í tengslum við þessa málsástæðu hafi legið fyrir við meðferð málsins fyrir héraðsdómi og því var ekki byggt á henni í dómi Landsréttar.

Í niðurstöðunni segir að samkvæmt lögum beri stjórnendur Landspítalans ábyrgð á fjárreiðum spítalans og því hvaða viðfangsefnum einstakir starfsmenn sinna. Í fyrri dómum hafi verið ítrekað að forstöðumenn ríkisstofnana hafi rúmar heimildir til að taka ákvarðanir um hagræðingu í rekstri en slíkar aðgerðir þurfi að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Ákvörðun um uppsögn konunnar hafi verið tekin á grundvelli heildstæðrar greiningar sem leitt hafi í ljós möguleika á hagræðingu og betri nýtingu þeirra fjármuna sem Landspítalinn hafði til umráða. Af gögnum málsins megi ráða að Landspítalinn hafi gætt meðalhófs. Spítalinn hafi ákveðið að stofna til nýrra starfa í því skyni að takast á við þau breyttu verkefni sem stóðu fyrir dyrum í eldhúsi og matsölum spítalans. Því sé ekki hægt að taka undir með konunni að henni hafi verið sagt upp til að ráða hæfari starfsmann í hennar stað.

Því var dómur héraðsdóms staðfestur og íslenska ríkið sýknað af kröfum konunnar.

Dóm Landsréttar í málinu er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti