Gríðarlegar skemmdir hafa komið í ljós í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Viðgerðir á húsinu myndu kosta 250 milljónir króna en óvíst er hvort farið verði í þær eða húsið rifið.
Bændablaðið greindi fyrst frá.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps lét gera ástandskoðun á félagsheimilinu Kirkjuhvoli til þess að meta hvaða viðhaldsframkvæmdir þyrfti að gera. Fundust miklar rakaskemmdir og mygla í öllum byggingarsýnum.
„Það hvarflaði aldrei að okkur að húsið væri svona illa farið,“ segir Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri við DV.
Engin starfsemi er í húsinu dagsdaglega heldur er það notað undir viðburði svo sem þorrablót og veislur. Húsið hefur verið notað sem leikmynd fyrir kvikmyndaupptökur, meðal annars fyrir sjónvarpsþættina Svörtu sanda eftir leikstjórann Baldvin Z.
„Það er allt í lagi að vera í húsinu í stuttan tíma en ekki til langdvalar,“ segir Einar.
Aðspurður um hvers vegna húsið hafi farið svona segir hann þetta vera gamalt hús, byggt 1960, sem ekki hafi verið nógu vel við haldið í gegnum tíðina. Mögulega hafi það verið afgangsstærð í rekstri sveitarfélagsins.
250 milljónir króna kostar að gera það hættulaust fyrir starfsemi og það er að sögn Einars verulegir fjármunir fyrir fámennt sveitarfélag. Í Skaftárhreppi búa um 700 manns.
Sveitarstjórn hefur ekki tekið neina ákvörðun um húsið, hvort ráðist verði í framkvæmdir eða það einfaldlega rifið. En mikil eftirspurn er eftir lóðum fyrir ýmis konar starfsemi á Kirkjubæjarklaustri. Einar segist vona að ákvörðun verði tekin í vetur.