„Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Ákall til fjölmiðla. Hugur minn er hjá Grindvíkingum þessa dagana það sem þeir eru að ganga í gegnum núna er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér hvernig er að upplifa. Nema mögulega þeir sem hafa upplifað eitthvað í líkingu við þær hamfarir sem eru að eiga sér þar stað,“
segir Auðunn Gunnar Eiríksson stjórnenda- og vinnustaðarráðgjafi hjá Gallup.
Auðunn Gunnar sem er fæddur og uppalinn á Flateyri við Önundarfjörð segir að fréttir af rýmingu Grindavíkurbæjar á föstudag hafi ýft upp gömul sár hjá sér. „Og eftir að hafa talað við mömmu og pabba og svo Greip frænda í morgun þá finnst mér líklegt að það séu bara ansi margir sem eru að upplifa skrítnar og jafnvel óþægilegar tilfinningar þessa dagana. Bæði vegna þess að við skiljum að hluta til hvernig Grindvíkingum líður og svo líka lætur þetta okkur minna á okkar fyrri áföll.“
Auðunn Gunnar bendir á umfjöllun fjölmiðla vegna jarðhræringa í Grindavík og segir það ansi vandmeðfarið að fjalla um svona atburð.
„Mér finnst að í mörgum tilfellum fari fjölmiðlar offari í því að reyna að ná sem „bestri“ frétt án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum sem það getur haft bæði á viðmælandann og aðra.
Er til dæmis virkilega nauðsynlegt að taka viðtal við aðila sem eru í áfalli að reyna að bjarga aleigunni sinni og hafa meira að segja bara örfáar mínútur til þess og í alvöru þarf að spyrja fólkið hvernig því líður á þessari stundu. Það er í raun ekki hægt að lýsa því.“
Auðunn Gunnar segir að af fenginni reynslu þá geti fjölmiðlar í raun bara dýpkað áfallið og ónærgætni getur látið fólki líða enn verr. Á meðal erfiðrar reynslu Auðuns Gunnars er snjóflóðið á Flateyri árið 1995, en foreldrar hans og bræður voru búsett í bænum. Þá var hann 19 ára búsettur í Reykjavík þar sem hann stundaði nám í framhaldsskóla.
„Bara svona sem dæmi úr eigin reynslu að einn atburður sem situr hvað mest í mér frá því 1995 er þegar foreldrar mínir og bræður komu til Reykjavíkur með varðskipinu. Þarna var ég að sjá þau í fyrsta skiptið síðan snjóflóðið átti sér stað og það fyrsta sem er gert er að þau eru gripin í viðtal af fréttamanni RÚV. Það lá við að ég hefði gengið í skrokk á viðkomandi blaðamanni til að fá að taka utan um foreldra og bræður, allt þetta var birt í sjónvarpinu á sínum tíma og á ég enn í dag erfitt með að horfa á það í dag. Myndin sem ég hef hér með er líka tekin á sama tíma og var ég þarna búinn að öskra og garga á myndatökumenn að láta okkur í friði.“
Segir hann skilaboð sín til fréttafólks á öllum miðlum að bera virðingu fyrir Grindvíkingum.
„Það er að ganga í gegnum einn mesta tilfinningarússíbana lífs síns eitthvað sem mun marka þau fyrir lífstíð, það er ekki gott að upplifa sig sem klikkbeitu fyrir fjölmiðla í ofanálag. Tilfinningar fólks eru ekki söluvara fyrir aðra.“