Hamborgarakeðjunni Smass og kjúklingastaðnum Stél var lokað fyrir skemmstu. Um fimmtán starfsmenn störfuðu hjá veitingastöðunum sem voru á þremur stöðum undir lokin.
Guðmundur Óskar Pálsson framkvæmdastjóri staðfestir þetta.
Staðirnir voru á Ægissíðu í Vesturbæ Reykjavíkur og Fitjum í Reykjanesbæ en einnig var Smass í Háholti í Mosfellsbæ. Staðirnir hafa nú verið seldir og veitingastaðirnir lagðir niður. Hamborgarastaðurinn 2Guys mun í staðinn opna á Ægissíðunni og Just Wingin It í Reykjanesbæ.
Eins og nafnið gefur til kynna gerðu Smass út á svokallaða smassborgara, það er hamborgara sem smassaðir eru og flattir út á pönnu til að hámarka brúnun á kjötinu. Stél sérhæfði sig í djúpsteiktum kjúklingi það er svokölluðum „hot chicken“ frá Nasville í Bandaríkjunum. Einnig kjúklingalokum, kjúklingalundum og vængjum.
Fyrsti Smass staðurinn opnaði í Vesturbænum í lok árs 2020. Um tíma var einnig opnaður staður á Hafnarstræti í miðborg Reykjavíkur. Stél opnaði sinn fyrsta stað árið 2021.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í lok árs 2021 sögðust forsvarsmenn Smass og Stél vera bjartsýnir á að opna fleiri veitingastaði víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Samlífi staðanna virkaði vel, svo sem með því að samnýta starfsfólk og húsnæði.