„Ég þurfti að fara í Super Mario tölvuleikjaheilann til að finna réttu leiðina heim, það þurfti að fara krókaleiðir, lokað hér, þá þurfti maður að snúa við og beygja þarna, ég þurfti að keyra í S eða Z til að komast heim. En heima hafði bara aðeins verpst upp gangstéttin fyrir framan húsið, annars leit þetta allt miklu betur út en ég þorði að vona,“ segir Grindvíkingurinn Petra Rós Ólafsdóttir í viðtali við DV.
Petra Rós fékk tækifæri í gær til að fara inn í Grindavík og ná í eitthvað af eigum sínum og fjölskyldunnar auk nauðsynlegs búnaðar í fyrirtæki hennar og eiginmannsins. Tíminn var stuttur en hún náði að nýta hann vel. Það var óraunveruleg upplifun fyrir Petru Rós að aka í gegnum mannlausan heimabæinn og sjá sprungur í götum og húsum. Aðkoman var þó miklu skárri en hún hafði óttast:
„Ég var með hjartað í brókunum yfir því hvað tæki á móti mér heima. En þetta leit miklu betur út en ég þorði að vona. Það hafði ekki einu sinni opnast skúffa. Við höfum reyndar verið að passa okkur í fjögur ár að festa upp myndir með kennaratyggjói og setja ekki brothætta hluti í mikla hæð. Það var ein sprunga utan á húsinu sem ég sá, en auðvitað hafði ég ekki tíma til að taka þetta út.“
Hugur og sál Petru Rósar eru núna að vinna úr reynslu gærdagsins:
„Í dag eru kerfin í líkamanum og sálinni að melta þetta, rykið aðeins að setjast. Núna er maður búinn að fara heim og óvissan um það hvort allt væri í klessu þar, henni hefur verið eytt, maður er kominn með eitthvað af dóti sem í sjálfu sér er tilgangslaust, en maður er þó kominn með dót. Maður hefur heyrt um svakalegar skemmdir í fréttunum en samt hef ég jákvæðan hug gagnvart framtíðinni þarna. Þetta er ótrúlegt samfélag og við eigum mikinn auð í fólkinu sem byggir Grindavík.“
Petra Rós hefur trú á framtíðinni þó að óvissan sé mikil:
„Ég er að reyna að hafa glasið svolítið vel hálffullt og maður tekur bara einn dag í einu. Auðvitað veltir maður fyrir sér öllum þessum skemmdum sem hafa orðið á bænum en sú hugsun hefur aldrei komið upp að ég fari aldrei aftur til Grindavíkur. En við eigum eftir að meta stöðuna.“
Petra Rós og fjölskylda er virk í grindvísku samfélagi, hún hefur lengi verið virk félagskona í Slysavarnardeildinni Þórkötlu og verið skoðunarmaður reikninga deildarinnar í mörg ár og er ritari í stjórn knattspyrnudeildar UMFG. Eiginmaður hennar og sonur starfa með björgunarsveitinni og tóku fullan þátt í rýmingu Grindavíkur á aðfaranótt laugardagsins og voru að þar til um hálffimm um nóttina.
Petra Rós og stórfjölskylda hennar una sér vel í stóru sumarleyfishúsi í Laugalandi í Holtum. Þar eru auk hennar, eiginmanns og barna, faðir hennar, systir og fjölskylda systurinnar.
Börnin eru 9, 15, 21 og 25 ára. Hún segir þau vera æðrulaus á þessum skrýtnu tímum. „Af því við fullorðnu höfum náð að halda okkur á rólegu nótunum þó að allt sé á fleygiferð í líkamanum og taugakerfinu, þá hafa börnin líka verið róleg. Þau hafa verið í góðu lagi en það yngsta, stelpan mín, var orðin hrædd um sexleytið á föstudag þegar við gáfumst upp á þessu og fórum. Við erum stórfjölskyldan saman hérna og erum bara í góðu yfirlæti. Við erum mjög vel sett hér í risastóru húsi í sveitinni og allir með nóg pláss. Svo erum við með hugann við að halda fyrirtækinu okkar gangandi, við hjónin eigum vélsmiðjuna Suðupunkt og vorum við að bjarga tækjum þaðan.
Ég starfa einnig hjá Optimal á Íslandi, sem er í útflutningi og framleiðir íblöndunarefni fyrir sjávarútveg. Auk þess erum við með sendingar innanlands. Við erum með starfsemina í Þórkötlustaðahverfinu, austast í bænum, og erum að reyna að fjarstýra þessu héðan . Optimal átti að skipa út gámum í dag og erum við að reyna að koma þeim út. Leyfið var löngu komið og búið að fylla gámana og þeir klárir í Grindavík. Síðan þegar flutningabíllinn var að nálgast Grindavík, þá var öllum snúið við og bíllinn komst aldrei í Grindavík. Þannig að gámarnir bíða enn tilbúnir við fyrirtækið,“ segir Petra Rós.
Petra Rós dáist að þeim samtakamætti og hlýhug sem henni finnst einkenna íslenskt samfélag núna í erfiðleikum Grindvíkinga. Hún segir líka að mikil þrautsegja einkenni Grindvíkinga sjálfa. „Það eru allir tilbúnir að hjálpa og maðurinn minn er búinn að fá boð víðsvegar um að nýta sér verkstæði hér og þar til að halda starfseminni gangandi. Ég er líka í stjórn knattspyrnudeildarinnar og íþróttafélög og aðrir aðilar hafa verið boðnir og búnir að lána föt og takkaskó svo krakkarnir geti komist á æfingar. Íslendingar eru bestir í því að standa saman þegar á móti blæs.“
„Þetta er eins og að vera í bíómynd,“ segir Petra Rós um upplifun sína af atburðum undanfarinna daga. „Eins og þegar ég var stödd í Smáralind um daginn, í 35 mínútna akstursfjarlægð frá heimilinu í Grindavík, og ég var að spá í hvort ég ætti að kaupa mér tvennar eða þrennar buxur og tvennar eða þrennar nærbuxur, til að eiga föt til skiptanna. Á meðan var fólk þarna að spá í jólagjafir. Ég beið bara eftir því að einhver klipi mig svo ég vaknaði. Þetta er eitthvað sem maður upplifir vonandi bara einu sinni á ævinni og þetta fer að verða komið gott.“