fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Segir skorpulifur í stórsókn á Íslandi

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 21:30

Mynd: Vísindavefur Háskóla Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Ólafsson læknir er sérfræðingur í meltingar- og lifrarsjúkdómum og klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Í grein sem Sigurður ritar í nýjasta tölublað Læknablaðsins segir að skorpulifur sé í stórsókn hér á landi. Hann skilgreinir skorpulifur með eftirfarandi hætti:

„Skorpulifur er lokastig margvíslegra lifrarsjúkdóma en algengustu orsakir eru óhófleg áfengisneysla, fitulifrarkvilli og veirulifrarbólga, einkum lifrarbólga C. Skorpulifur er alvarlegur sjúkdómur og dánartíðni er há.“

Sigurður segist sem námslæknir eftir útskrift úr læknadeild árið 1985 hafa séð einn sjúkling með skorpulifur. Námslæknar á Íslandi upplifi nú allt annan veruleika. Það séu alltaf nokkrir skorpulifrarsjúklingar á legudeildum Landspítala og umönnun þeirra sé hluti af daglegum störfum námslækna.

Rannsóknir varpi ljósi á orsakir þessarar þróunar. Nýgengi skorpulifrar á Íslandi hafi lengi verið það lægsta á Vesturlöndum:

„Árin 1994-2003 var nýgengi skorpulifrar einungis 3,3 tilfelli fyrir hverja 100.000 íbúa. Nýlega var birt rannsókn á nýgengi og orsökum skorpulifrar á Íslandi fyrir tímabilið 2010-2015. Nýgengi skorpulifrar á þessu tímabili var 9,7 tilfelli fyrir hverja 100.000 íbúa. Það er þreföld aukning á nýgengi miðað fyrri rannsókn en var ennþá nokkru lægra en þekktist meðal annarra Norðurlandaþjóða. Meginorsakir skorpulifrar voru áfengisneysla (31%), fitulifrarkvilli (22%) og lifrarbólga C (21%).“

Ástæðurnar séu vaxandi áfengisneysla meðal Íslendinga, offita og sykursýki sem valdi fitulifrarkvilla og lifrarbólgu C smit meðal sprautufíkla:

„Mikil aukning hefur orðið á áfengisneyslu meðal Íslendinga, eða frá 4,3 lítrum á hvern íbúa eldri en 15 ára árið 1980 í 7,5 lítra á árunum 2016-2020.“

Sigurður segir að árið 2016 hafi verið ráðist í átak gegn lifrarbólgu C hér á landi með þeim árangri að aðeins örfáir Íslendingar hafi greinst síðustu ár með skorpulifur af völdum lifrarbólgu C. Þrátt fyrir þann árangur haldi nýgengi skorpulifrar áfram að vaxa.

Sigurður vísar til nýlegrar rannsóknar á alvarlegum áfengistengdum lifrarsjúkdómum (áfengisskorpu-lifur og áfengislifrarbólgu) á Íslandi:

„Á tímabilinu 1984-2000 var nýgengi 0,77 á 100.000 íbúa á ári en jókst í 6,1 árin 2016-2020. Það er áttföld aukning! … Höfundar skýra þetta með mikilli aukningu áfengisneyslu undanfarna áratugi. Þeir benda jafnframt á samhengi aukinnar neyslu við greiðara aðgengi að áfengi undanfarin ár.“

Sigurður segir rannsóknir hafa sýnt fram á beint samband áfengisneyslu og dánartíðni af völdum skorpulifrar og þar hafi aðgengi að áfengi talsvert að segja:

„Aukin áfengisneysla hefur jafnan í för með sér vaxandi nýgengi og dánartíðni af völdum þessa kvilla. Meira aðgengi leiðir til meiri áfengisneyslu og aukið aðgengi að áfengi er vafalítið ein af meginorsökum vaxandi nýgengis skorpulifrar hér á landi.“

Sigurður að á Íslandi séu lýðheilsusjónarmið nú látin víkja. Á undanförnum árum hafi verið rekinn mikill áróður fyrir greiðara aðgengi og meira frelsi í áfengissölu. Alþingismenn leggi stöðugt fram lagafrumvörp í þeim tilgangi að auka framboð og aðgengi að áfengi:

„Það kann að vera sjónarmið í sjálfu sér að aukið frelsi á þessu sviði sé réttlætanlegt þótt það leiði til aukinnar sjúkdómsbyrði og heilbrigðisútgjalda – en það þarf þá að koma skýrt fram í málflutningi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg